Fara í efni
Fréttir

300 rannsóknaskýrslur RHA frá 1997 til 2021

Starfsmenn RHA í október 2022. Frá vinstri: Arnar Þór Jóhannesson, forstöðumaður, Rannveig Gústafsdóttir, Helga Einarsdóttir, Marta Einarsdóttir, Bára Elísabet Dagsdóttir, Sæunn Gísladóttir og Hjalti Jóhannesson. Fjarverandi voru Anna Soffía Víkingsdóttir og Dana Rán Jónsdóttir.

Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri (RHA) fagnar 30 ára afmæli um þessar mundir. Frá stofnun 1992 hefur RHA sinnt því hlutverki að efla rannsóknir við Háskólann á Akureyri og vert að nefna að miðstöðin birti 300 rannsóknaskýrslur frá 1997 og 2021. Þetta kemur fram á vef RHA.

„Þrátt fyrir að markmiðin með rekstri RHA hafi ekki breyst opinberlega þá hafa orðið talsverðar breytingar á rannsóknaáherslum á þeim 30 árum sem stofnunin hefur starfað,“ segir á vef miðstöðvarinnar. „Á upphafsárum RHA voru rannsóknir og ráðgjöf fyrir fyrirtæki áberandi, ekki hvað síst í tengslum við sjávarútveginn. Árið 1999 tók RHA að sér sérfræðiþjónustu við grunnskóla á Akureyri og í fleiri sveitarfélögum á Norðurlandi eystra. Í tengslum við þetta nýja verkefni, sem skapaði ákveðna kjölfestu í verkefnum og fjárhag RHA, efldust ýmsar rannsóknir og ráðgjöf tengd skólamálum almennt og í öðrum landshlutum.“

Um aldamótin efldust rannsóknir tengdar byggða-, samgöngu- og sveitarstjórnarmálum og hefur sú áhersla að nokkru leyti haldist til dagsins í dag að því er segir á vef RHA. „Yfir tímabilið 1997-2011 voru fimm helstu svið rannsókna sveitarstjórnarmál, samgöngur, skólar og menntun, byggðaþróun og verkefni í þágu Háskólans á Akureyri. Aukin áhersla hefur verið á byggðaþróun og mat á samfélagsáhrifum framkvæmda frá árinu 2011 en milli áranna 2011 og 2021 voru helstu svið rannsókna byggðaþróun, sveitarstjórnarmál, samgöngur, skólar og menntun og mat á samfélagsáhrifum. Þróunin út í mat á samfélagsáhrifum framkvæmda hófst á árunum 2004 til 2010 þegar RHA vann stóra rannsókn sem fólst í að fylgjast með samfélags- og efnahagslegum áhrifum stórframkvæmda á Austurlandi (sem var stærsta einstaka rannsókn RHA frá upphafi).“

Nánar hér á vef RHA.