30 ára vígsluafmæli Glerárkirkju fagnað
Því er fagnað um helgina að 30 ár eru liðin frá vígslu Glerárkirkju. Þau merku tímamót voru 6. desember 1992.
- Í gær var opnuð listsýning í kirkjunni. Verkin þar sem eru sýnd eru öll unnin af fólki sem kemur í Skógarlund, miðstöð virkni og hæfingar.
- Í dag klukkan 15.00 hefst í safnaðarheimili kirkjunnar málþing – Kirkja á krossgötum. Nánar um málþingið neðar í fréttinni.
- Á morgun, sunnudag 4. desember, verður hátíðarmessa í Glerárkirkju klukkan 11.00.
Kirkjan er fólkið – hún er samfélag
„Við reynum á þessu 30 ára afmæli að leggja áherslu á það að kirkjan sé fólkið sem kemur saman sem samfélag og styður hvert annað, fagnar hvert öðru,“ segir séra Sindri Geir Óskarsson, sóknarprestur í Glerárkirkju. „Listasýningin er unnin af öllum þeim sem koma í Skógarlund, miðstöð virkni og hæfingar. Það er fólk hér í nágrenni kirkjunnar sem sækir Skógarlund og eru tíðir þáttakendur í okkar starfi. Við vildum leyfa þeim að eiga hlut í afmælinu, lyfta þeim upp, því ég veit það bara að fólk sem lifir við einhverskonar fötlun er í meiri hættu á að lenda útundan félagslega, en við sjáum þau og fögnum sem mikilvægum þátttakendum í samfélaginu.“
Séra Sindri Geir Óskarsson, sóknarprestur í Glerárkirkju. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Málþingið í dag
„Á málþinginu er svo borin fram þessi klassíska spurning sem þjóðkirkjan þarf að fara að gefa gott svar við, hvert er hlutverk hennar og framtíð? Þjóðkirkjan stendur á krossgötum og því fylgja bæði ógnir og tækifæri. Þarna er bæði fólk úr akademíunni, þjóðkirkjunni, siðmennt og svo bara „venjulegt“ fólk að fara að ræða saman og allar raddir eru velkomnar. Ég hlakka eiginlega mest til málþingsins þótt ég viti að það sé nú ekki allra. En fyrir okkur í Glerárkirkju er mikilvægt að taka þátt í þessu samtali, hlusta, melta og læra,“ segir séra Sindri.
Hátíðarmessan
„Hátíðarmessan á sunnudaginn er svo auðvitað ákveðinn miðpunktur í þessu. Við erum að teygja okkur aftur til vígsludagsins og notum sálma sem Áskell Jónsson organisti og tónskáld samdi fyrir vígsluna á sínum tíma. En svo ætlum við að nota rytmískt nútíma kirkjutónverk, Missa Gioiosa, í staðinn fyrir hefðbundin tón og messusvör, svo þetta verður óhefðbundið og skemmtilegt, að mínu mati,“ segir séra Sindri. „Messan verður leidd af núverandi og fyrrverandi prestum og djáknum kirkjunnar, svo mun Jón Ármann prófastur prédika. Þessu lýkur auðvitað með heljarinnar hátíðamessukaffi þar sem kvenfélagið Baldursbrá stendur vaktina. Lokapunkturinn eru svo jólatónleikar kórsins kl 16.00 á sunnudeginum. Þar sækjum við í samfélagið sem hefur verið hér og tekið þátt í tónlistarstarfi kirkjunnar í gegnum árin. Margrét Árnadóttir söngkona og Krossbandið koma fram með kórnum, sömuleiðis barna- og æskulýðskórar kirkjunnar svo þetta verður veisla. Það er auðvitað margt í boði víða um helgina, en það er velkomið að líta við hér og auðvitað dýrmætt ef gamalt kórfólk, sóknarnefndarfólk og önnur sem tekið hafa þátt í starfi kirkjunnar undanfarna áratugi mæti og fagni með okkur.“
Staða og hlutverk þjóðkirkjunnar
„Á afmælismálþingi Glerárkirkju er umræðuefnið stórt og við ætlum að nálgast það úr ólíkum áttum,“ segir séra Sindri. Málþingið hefst klukkan 15.00 og reiknað er með að því ljúki um kl. 16.30.
„Þjóðkirkjan stendur á krossgötum. Hún hefur öðlast frelsi frá ríkinu til að ákveða sjálf hvernig hún ver fjármunum sínum og skipuleggur starf sitt, en hvernig mun þjóðkirkjan fara með þetta frelsi? Þjóðkirkjan sem stofnun á undir högg að sækja í íslensku samfélagi, meðlimum fækkar og tilgangur hennar er mörgum óljós. Þarf þjóðkirkjan bara betri fjölmiðlafulltrúa eða þarf hún að horfa inn á við og þora að taka nýja stefnu?“
- Dr. Sigríður Guðmarsdóttir flytur uppistöðuerindi um lýðræðið í þjóðkirkjunni. Hún er lektor við guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands og menntar þar meðal annars djákna, presta og biskupa framtíðarinnar.
- Sr. Helga Bragadóttir er nývígður prestur við Glerárkirkju. Hún flytur örerindi um vonir og væntingar til þjóðkirkjunnar sem hennar framtíðar starfsvettvangs.
- Dr. Hjalti Hugason, prófessor emeritus við guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Hann hefur beint sjónum sínum að þeim tækifærum sem breytt staða þjóðkirkjunnar færir og flytur örerindi því tengt.
Til að bregðast við og hrista upp í umræðunni veitir góður hópur fólks andsvör:
- Kristín Helga Schiöth, alþjóðafræðingur og stjórnarkona í Siðmennt.
- Dr. Sigurður Kristinsson, prófessor í heimspeki við Háskólann á Akureyri
- Arna Jakobsdóttir, þroskaþjálfi og djáknanemi.
- Dr. Brynhildur Bjarnadóttir, lektor við Háskólann á Akureyri og formaður stjórnar KFUM og KFUK á Akureyri.
- Þorvaldur Örn Davíðsson, tónskáld og organisti.
Sr. Sindri Geir Óskarsson verður fundarstjóri og leiðir samtalið.
Kaffiveitingar verða í boði og reiknað er með að ljúka málþinginu um kl.16:30.
Öll eru hjartanlega velkomin og „ekki hika við að leggja orð í belg um framtíð þjóðkirkjunnar,“ segir séra Sindri.