Fara í efni
Fréttir

2/3 á háskólafundi HA vilja falla frá sameiningu að svo stöddu

Háskólinn á Akureyri. Ljósmynd: Þorgeir Baldursson

Mikill meirihluti á háskólafundi í Háskólanum á Akureyri samþykkti á mánudag ályktun þess efnis að fallið verði frá áformum um sameiningu skólans og Háskólans á Bifröst að svo stöddu.

  • Háskólafundur, sem haldinn er a.m.k. einu sinni á ári, er samráðsvettvangur fulltrúa yfirstjórnar háskólans, fræðasviða hans, fulltrúa starfsmanna við stjórnsýslu skólans og fulltrúa nemenda og kennara, að því er segir á vef skólans.

Ályktunin, sem lögð var fram af 13 fulltrúum á fundinum, var samþykkt með 25 atkvæðum gegn 13. Atkvæðagreiðslan var leynileg en niðurstaðan þýðir að stuðningurinn náði langt út fyrir deildirnar þrjár í skólanum sem lýstu nýverið miklum efasemdum um sameininguna og hvernig staðið er að málum.

Það voru 13 akademískir starfsmenn Félagsvísinda- og Viðskiptadeilda sem lögðu ályktunina fram. Hún er svohljóðandi:

Í desember 2023 var birt skýrslan Mat á fýsileika sameiningar Háskólans á Akureyri og Háskólans á Bifröst. Eftir að hafa kynnt sér vandlega innihald skýrslunnar og rætt sín á milli leggja undirritaðir fulltrúar á háskólafundi, úr Félagsvísindadeild og Viðskiptadeild, fram eftirfarandi tillögu að ályktun háskólafundar:

Í skýrslunni Mat á fýsileika sameiningar Háskólans á Akureyri og Háskólans á Bifröst er ekki að finna sannfærandi rök fyrir áframhaldandi viðræðum um sameiningu háskólanna tveggja. Það vekur tortryggni hve mikið er um endurtekin slagorð almenns eðlis um kosti sameiningar án þess að nauðsynlegar upplýsingar styðji við þau. Ekki er útskýrt nægjanlega hverjir ókostirnir gætu verið fyrir Háskólann á Akureyri og hvernig unnt yrði að draga úr þeim. Sumt af því sem fram kemur í skýrslunni er villandi eða rangt og í henni er ekki að finna nauðsynlegar upplýsingar til að mögulegt sé að meta fýsileika sameiningar. Háskólafundur ályktar því að fallið verði frá áformum um sameiningu háskólanna tveggja að svo stöddu.

Andrea Sigrún Hjálmsdóttir lektor, Félagsvísindadeild

Berglind Hólm Ragnarsdóttir lektor, Félagsvísindadeild

Birgir Guðmundsson prófessor, Félagsvísindadeild

Giorgio Baruchello prófessor, Félagsvísindadeild

Grétar Þór Eyþórsson prófessor, Viðskiptadeild

Guðbjörg Hildur Kolbeins dósent, Félagsvísindadeild

Hafdís Björg Hjálmarsdóttir lektor, Viðskiptadeild

Hjördís Sigursteinsdóttir dósent, Viðskiptadeild

Ingibjörg Sigurðardóttir aðjúnkt, Félagsvísindadeild

Markus Meckl prófessor, Félagsvísindadeild

Sigurður Kristinsson prófessor, Félagsvísindadeild

Stefán Bjarni Gunnlaugsson prófessor, Viðskiptadeild

Vera Kristín Vestmann Kristjánsdóttir aðjúnkt, Viðskiptadeild

Háskólaráð HA fundar á morgun, 25. janúar. Gera má ráð fyrir að umrædd ályktun verði tekin fyrir þar.
_ _ _

HVAÐ ER HÁSKÓLAFUNDUR?

Á vef Háskólans á Akureyri segir:

  • Háskólafundur, sem haldinn er a.m.k. einu sinni á ári, er samráðsvettvangur fulltrúa yfirstjórnar háskólans, fræðasviða hans, fulltrúa starfsmanna við stjórnsýslu skólans og fulltrúa nemenda og kennara.
  • Háskólafundur mótar sameiginlega vísinda- og menntastefnuháskólans og leitast við að efla og styrkja þróun hans.
  • Háskólaráð getur leitað umsagnar háskólafundar um hvaðeina sem varðar starfsemi háskólans.
  • Fundurinn telst ályktunarbær um hvaðeina sem snýr að vísinda- og menntastefnu háskólans og um önnur þau málefni sem háskólaráð ákveður sérstaklega að vísa til hans.
  • Háskólafundur tjáir sig um mál í formi ályktana, en um er að ræða umræðuvettvang og ráðgefandi umsagnaraðila um þau mál sem tekin eru til umfjöllunar skv. dagskrá fundar.

HVAÐ ER HÁSKÓLARÁÐ?

Á vef Háskólans á Akureyri segir:

  • Háskólaráð fer með æðsta ákvörðunarvald innan háskólans, sinnir yfirumsjón málefna er varða háskólann almennt og markar honum heildarstefnu.
  • Þá stuðlar Háskólaráð að, skipuleggur og hefur umsjón með samvinnu sviða og samskiptum við aðila utan háskólans, þar með talið samstarf við aðra háskóla og rannsóknastofnanir.
  • Háskólaráð hefur úrskurðarvald í málefnum háskólans eftir því sem lög mæla fyrir um og nánar er ákveðið í reglugerð.