Fara í efni
Fréttir

150 Tékkar koma með beina fluginu frá Prag

Prag, höfuðborg Tékklands.

Ferðaskrifstofan Aventura býður uppá fjögurra daga ferð til Prag í beinu flugi frá Akureyri næsta fimmtudag, 26. október. Flogið er út að morgni og lent aftur á Akureyrarflugvelli á sunnudagskvöldi. 

Að sögn Andra Más Ingólfssonar, forstjóra Aventura, er þetta fyrsta beina flugið frá Prag til Akureyrar. Ágætlega hefur gengið að selja Norðlendingum í ferðina en ekki er síður gaman að geta þess að með vélinni að utan koma 150 tékkneskir ferðamenn.

„Við bjóðum upp á fjögurra daga ferð og á sama tíma munu 150 Tékkar kynnast fegurð Norðurlands. Þeir munu dvelja á Akureyri og við Mývatn,“ segir Andri Már við Akureyri.net. Hann skipuleggur ferðina í samstarfi við starfsbræður ytra. „Um er að ræða tvær stærstu ferðaskrifstofur Tékklands, sem hafa unnið með mér í mörg ár og féllust á að prófa nýjan áfangastað,“ segir Andri Már.