„Mennskuna er ekki hægt að gúgla“
Í gær voru 139 nemendur brautskráðir frá Verkmenntaskólanum á Akureyri við hátíðlega athöfn í menningarhúsinu Hofi, þar af 24 með tvö prófskírteini. Í desember brautskráði VMA 86 nemendur og því hefur skólinn útskrifað 225 nemendur á þessu skólaári.
Í upphafi brautskráningarræðu sinnar sagði Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari það mikið ánægjuefni að geta nú loks útskrifað nemendur frá skólanum án samgöngutakmarkana og sóttvarnaaðgerða, sem hafi verið staðreyndin á síðustu fjórum útskriftum.
„Við höfum öll fundið fyrir áhrifum Covid á líf okkar síðustu rúmlega tvö ár, sumt er komið til að vera en annað erum við fegin að hafði ekki varanleg áhrif. Breytingar í kjölfar heimsfaraldurs hafa mismunandi áhrif á kynslóðir og ég er nokkuð viss um að fólk á mínum aldri sér áhrifin með öðrum hætti en þeir sem yngri eru,“ sagði skólameistari. „Við munum eftir störfunum okkar fyrir covid og hvernig vinnustaðurinn var bara á sínum stað. Sumir í göngufæri við vinnustaðinn en aðrir keyra tugi kílómetra til að komast á sinn stað í vinnuna. Bara fyrir nokkrum árum þurftum við að fara á milli staða til að fá stimpla og undirskriftir vegna erinda við hið opinbera. Við tókum út gjaldeyri í alvöru bréfpeningum áður en við fórum til útlanda – við meira að segja eigum sum enn bleika eða græna vélritaða ökuskírteinið okkar.“
Vinnustaðurinn næstum hvar sem er
Sigríður nefndi að unga fólkið sem tók við prófskírteinum sínum í gær myndi ganga inn á vinnustaði framtíðarinnar með öðrum hætti. „Það mun ekki bara hafa val heldur gerir það kröfu um að fá að stjórna vinnu sinni meira sjálft og staðsetning hefðbundinna skrifstofu- og þjónustustarfa verður ekki endilega með viðveru í húsnæði fyrirtækis eða stofnunar. Á næstu árum kemur fólk inn á vinnumarkaðinn með annað hugarfar og hugmyndir þess um störf verða aðrar en t.d. mín kynslóð hefur. Unga fólkið mun ekki þekkja störfin og starfsumhverfið eins og það er í dag og alls ekki eins og það var fyrir árið 2019. Sjálfvirkni og jafnvel sýndarveruleiki verður stór hluti í vinnuumhverfi framtíðarinnar og vinnustaðurinn verður næstum hvar sem er og þar sem það hentar út frá eðli starfsins, vinnustað og starfsmanni,“ sagði Sigríður Huld.
Samskipti og samvinna
Skólameistari sagði að með breyttu samfélagi þurfi að huga að breyttri menntun og því væri mikil áskorun í því fólgin að halda í við þessar breytingar í framhaldsskólunum. „Hvað sem verður er það alltaf í okkar höndum að halda í mennskuna í tækniþróuðu samfélagi. Áhersla skólanna verður að vera meiri í þá átt að halda í tungumál okkar og menningu, efla samkennd og samvinnu, læra að þekkja líðan sína, takmarkanir og leiðir til sjálfseflingar, kenna meira um alþjóðlegt samfélag og mismunandi menningarheima, kenna umburðarlyndi, virða mannréttindi og efla jafnrétti í víðum skilningi. Áhersla á þekkingu og staðreyndir þarf að víkja fyrir mennskunni og það er áskorun fyrir kennara, skólana, stjórnmálamenn og foreldra. Aðgangur að þekkingu og námi er ekki takmarkaður við fáa einstaklinga eins og áður var. Atvinnulífið kallar á hæfni í mannlegum samskiptum og er krafa um þá hæfni í nær öllum atvinnuauglýsingum sem við sjáum í dag. Sum störf krefjast frekar hæfni í mannlegum samskiptum en hreinnar fagþekkingar. Fagið er ekki alltaf það sem skiptir mestu máli heldur eiginleiki fólks til að vinna með öðru fólki og ná árangri í gegnum samvinnu. Ungt fólk þekkir þá auðveldu leið til þekkingarleitar að gúgla en mennskuna er ekki hægt að gúgla, hana lærir fólk í gegnum samskipti og samvinnu.“
Þurfum að gera betur
Sigríður Huld sagði aðgang að menntun ekki vera sjálfgefinn, þó svo að við Íslendingar þekkjum ekki annað. „Okkur er hins vegar ekki öllum gefin sömu tækifærin til að ná fram okkar besta í gegnum okkar ágæta skólakerfi. Við búum börnum mismunandi aðstæður eftir efnahag foreldranna og það kemur fram í framtíðarmöguleikum þeirra. Sterkasta fylgnin við brottfall úr framhaldsskólum er efnahagsleg staða foreldra og brottfallið eykst enn frekar ef foreldrar eru með annað móðurmál en íslensku. Við þurfum að gera svo miklu betur gagnvart þessum börnum, þurfum að efla þau og gefa þeim þau tækifæri sem við getum boðið þeim ef við sem samfélag ákveðum að gera það.
Það sem getur aukið velferð barna til framtíðar gerist inni í skólunum - með menntun. Það felast nýjar áskoranir í nýjum lögum um velferð barna en innleiðing á þeim stendur nú yfir. En þrátt fyrir góðan ásetning laganna get ég ekki séð betur en að það þurfi að ráða í ný störf sem krefjast fagþekkingar og hæfni sem tengist félagsþjónustu og þjónustu við foreldra og börn þeirra.
Framhaldsskólar á Íslandi fá afar takmarkað fé til að aðstoða nemendur með annað móðurmál en íslensku. Námsbrautarlýsingar gera ekki ráð fyrir öðru en að allir geti skilið, lesið og skrifað íslensku. Það er ekki gert ráð fyrir því að nemendur geti stundað nám á sínu eigin móðurmáli með neinum hætti. Foreldrar geta lítið hjálpað börnum sínum þar sem þeir skilja ekki heldur það sem er farið fram á að barnið læri. Það eru þó til leiðir en þær eru vannýttar, kannski vegna þess að það er ekki nógu mikill áhugi á því að nýta þær, t.d. með aðstoð tækninnar og með því að efla þekkingu og sérhæfingu kennara til að vinna með nemendum með annað móðurmál en íslensku. En til þess þarf aukið fjármagn, sem ég tel að sé vel varið til að hjálpa nemendum að finna sig í námi og ljúka því,“ sagði Sigríður Huld.
Nánar hér á heimasíðu Verkmenntaskólans