Fara í efni
Fréttir

12 mánaða og eldri með pláss – sex klukkutímar ókeypis

Mynd af vef Akureyrarbæjar

Öll börn á Akureyri yfir 12 mánaða aldri eru nú komin með leikskólapláss. Eftir opnun nýrra leikskóladeilda í húsakynnum Síðuskóla og Oddeyrarskóla hefur verið mögulegt að koma öllum börnum fyrir sem þurfa pláss, segir á heimasíðu Akureyrarbæjar. Þar kemur fram að næstu skref í uppbyggingu í leikskólamálum séu nýr leikskóli í Hagahverfi og ný gjaldskrá sem tekur gildi um áramót.

  • Samkvæmt nýja fyrirkomulaginu sem verður innleitt um áramótin verða fyrstu sex klukkustundir leikskóladagsins, frá kl. 8-14, gjaldfrjáls og vistun til kl. 16 lækkar í verði. Áfram verður greitt fyrir fæði.
  • Gjöld verða tekjutengd, bæði fyrir einstaklinga og fólk í sambúð. Einnig verður haldið áfram með svokallaðar heimgreiðslur.
  • Foreldrar sem nýta sér ekki leikskóla geta fengið 105.000 kr.- á mánuði í heimgreiðslu fyrir barn sem er komið yfir 12 mánaða aldur.
  • Fyrir breytingu voru foreldrar sem eru giftir eða í sambúð að borga 29.969 kr.- fyrir sex klukkustunda leikskóladvöl með morgunhressingu og hádegismat.
  • Lægra gjald er fyrir einstæða foreldra, pör þar sem báðir eru í námi eða báðir atvinnulausir, báðir 75% öryrkjar eða þar sem annað foreldrið er í námi en hitt atvinnulaust eða 75% öryrki.
  • Hingað til hefur lægra gjaldið fyrir sex klukkustunda vistun verið 22.613 kr.- samkvæmt nýrri gjaldskrá á heimasíðu Akureyrarbæjar. Þessi upphæð verður því til búbótar fyrir foreldra eftir áramót.

Skiptar skoðanir á bæjarstjórnarfundi

Leikskólamálin, og áðurnefndar breytingar, voru rædd á bæjarstjórnarfundi þann 5. september síðastliðinn. Málshefjandi var Heimir Örn Árnason, D-lista. Hilda Jana Gísladóttir (S-lista) og Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir (V-lista) vöktu máls á því að lítið samráð hefði verið haft við foreldra og atvinnulífið og lítið tillit tekið til jafnréttissjónarmiða. Þessar breytingar myndu síst gagnast lágtekjufólki og fólki með lítið bakland. Hér er vitnað í fundargerðina, sem má lesa hér í heild sinni: https://www.akureyri.is/is/stjornkerfi/stjornsysla/fundargerdir/baejarstjorn/12179

Tekið er fram í frétt á vef Akureyrarbæjar að enn séu þrír mánuðir til stefnu þangað til nýtt greiðslufyrirkomulag tekur gildi og undirbúningsvinnan haldi áfram á þessum tíma. Haft verði samband við Jafnréttisstofu, fulltrúa foreldra, leikskólastjórana og Félag leikskólakennara.