Fara í efni
Fréttir

112 nýjar geymslur til leigu við Týsnes

Bjart og snyrtilegt er í nýbyggingunni við Týsnes 12, hátt til lofts og vítt til veggja. Myndir: Skapti Hallgrímsson
Fyrirtækið AK geymslur tekur í dag í notkun nýtt hús við Týsnes 12, þar sem eru 112 geymslur til leigu. Af því tilefni er opið hús í dag frá klukkan 14.00 til 16.00 og aftur á morgun frá kl. 12.00 til 14.00. Týsnes er í nýju iðnaðarhverfi nyrst á Akureyri, spölkorni ofan við Krossanes.
 
Flestar geymslur í nýbyggingunni eru átta fermetrar. Fyrirtækið hefur boðið upp á geymslur til leigu í gamla Dagshúsinu við Strandgötu síðan 2018 og strax þá kom í ljós að þörfin var mikil því allar götur síðan hefur fólk verið á biðlista, að sögn Lárusar Orra Sigurðssonar, starfsmanns fyrirtækisins. Þess vegna var ákveðið að stíga þetta skref nú.
 
Fyllstu kröfum um öryggi er fylgt í húsinu, að sögn Lárusar Orra. Svæðið er vaktað með myndavélakerfi og bruna og rakavarnir eru beintengdar Securitas. Fullkomið aðgangsstýrikerfi gerir það að verkum að leigjendur komast í geymslurnar allan sólarhringinn.
 
Það er fyrirtækið Vesturkantur ehf. í Hafnarfirði sem á AK geymslur. Hrímland, sem einnig er dótturfyrirtæki Vesturkants, hefur árum saman verið áberandi í ferðaþjónustu á Akureyri – leigir út íbúðir við Strandgötu og nokkur orlofshús í Hálöndum ofan Akureyrar.