Fara í efni
Fréttir

100 milljón króna múrinn fallinn

Dýrasta hús Akureyrar á fasteignavefnum í dag, Austurbyggð 15. Ásett verð 119,9 milljónir króna.

Sex einbýlishús eru nú auglýst til sölu á Akureyri á yfir 100 milljónir. Þessi hús eru stór og vegleg og staðsett í grónum hverfum. Eignaver er með flest þessa húsa á sölu en þó er dýrasta eignin til sölu hjá Hvammi, einbýli í Austurbyggð en ásett verð á því er 119 milljónir.

Hækkun á sérbýlum setið eftir

„Það er ekki langt síðan 100 milljóna múrinn féll hér á Akureyri,” segir Arnar Birgisson eigandi fasteignasölunnar Eignavers aðspurður út í það hvort 100 milljónir sé orðið staðlað verð fyrir stór einbýli á Akureyri. „Skýrslur sýna að fjölbýli hafa hækkað í verði umfram landsmeðaltal en aftur á móti hafa sérbýli á Akureyri ekki hækkað eins mikið og hafa setið eftir. En það er að breytast núna og algengt að góð einbýlishús seljist á 90-110 milljónir.”

Hann segir kaupendur vera heimamenn sem séu að stækka við sig. Þeir eigi jafnvel parhús eða stórar íbúðir og vilji komast í einbýli, en verðhækkanir undanfarið á minni eignum gefi fólki kost á því að stækka við sig.

Góð sala þrátt fyrir efnahagsspár

Athygli vekur að fimm af þeim sex einbýlishúsum sem auglýst eru til sölu á Akureyri yfir 100 milljónir eru öll á efri brekkunni. Arnar vill þó ekki meina að einhver ein gata sé endilega dýrara en önnur en hann segir að Gerðin séu greinilega mjög sterk. „Gerðin eru mjög vinsæl og mikil eftirspurn þar. Þetta er fjölskylduvænt svæði, stutt í KA og Lundarskóla, og svo styrktist hverfið mikið með tilkomu Dalsbrautarinnar þegar allt aðgengi batnaði.”

Arnar segir að mikil og góð fasteignasala hafi verið í september sem hafi komið honum nokkuð á óvart. „Miðað við neikvæðar efnahagsspár, ýmsar þrengingar og lausa samninga á vinnumarkaði þá kemur þetta á óvart. Í Reykjavík er fasteignasala að dragast saman en við erum ekki að finna fyrir því hér enn þá.”

Hér má sjá sex dýrustu einbýlishús Akureyrar sem eru föl um þessar mundir:

Austurbyggð 119.000.000 kr. 

Hólsgerði 117.000.000 kr. 

Birkilundur 113.900.000 kr. 

Háhlíð 111.900.000 kr.

Hólsgerði 109.000 kr. 

Lerkilundur 100.900 kr. 

Gerðin eru vinsælt hverfi á Akureyri og þar eru nokkur hús til sölu á yfir 100 milljónir. Þetta hús er við Hólsgerði en er nú þegar selt með fyrirvara.

Stór eldri hús í grónum hverfum á Akureyri seljast nú á hærra verði en áður. Þessi mynd er úr húsi við Hólsgerði.

Austurbyggð 15, falleg eign í grónu hverfi.

Stutt er síðan einbýlishús fóru að seljast yfir 100 milljónir á Akureyri. Þessi mynd er úr einu slíku húsi sem er til sölu í Austurbyggð.