Fara í efni
Verkmenntaskólinn á Akureyri

Tvisvar sinnum tvöfalt hjá blakliðum KA

Blaklið KA eru á þokkalegri siglingu í byrjun móts, konurnar með fullt hús og karlarnir aðeins tapað einum leik.

Blaklið KA unnu bæði öfluga sigra á liðum Aftureldingar í dag og koma heim með 12 stig úr borgarferð helgarinnar því bæði liðin unnu einnig sína leiki gegn HK í Kópavogi í gær. Kvennaliðið tapaði sinni fyrstu hrinu í leik dagsins. Bæði lið eru í toppsætum Unbroken-deildanna.

Fyrsta tapaða hrina KA-kvenna

Kvennalið KA hafði fyrir leikinn í dag ekki tapað einni einustu hrinu í leikjunum fjórum sem liðið hafði spilað. Það breyttist þó í dag því eftir að KA vann fyrstu hrinuna nokkuð örugglega, 25-16, vann Afturelding þá næstu eftir upphækkun, 27-25, og jafnaði leikinn. Leikmenn KA létu það ekki á sig fá og unnu næstu tvær hrinur og þar með leikinn 3-1.

KA er með örugga forystu á toppi Unbroken-deildarinnar, en liðið hefur unnið fimm fyrstu leiki sína í haust. KA er því með 15 stig á toppnum, Völsungur er með níu stig, en hefur leikið einum leik færra en KA, og Afturelding í þriðja sæti, einnig með níu stig, en eftir fjóra leiki.

KA-karlar einnig á toppnum

Karlalið KA vann Aftureldingu í fyrri leik dagsins í Mosfellsbænum, 3-0. KA er á toppi Unbroken-deildar karla með 15 stig úr sex leikjum, Þróttur er með 12 stig úr sex leikjum og Vestri 12 stig úr sjö leikjum.