Fara í efni
Verkmenntaskólinn á Akureyri

Stjórn Hugins segir loforð svikin

Menntaskólinn á Akureyri. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Stjórn Skólafélagsins Hugins í Menntaskólanum á Akureyri sendi frá sér yfirlýsingu fyrr í kvöld þar sem fram kemur eindregin andstaða gegn sameiningu MA og VMA. Stjórnin sakar ráðuneyti menntamála um að hafa svikið loforð frá því í vor.

Yfirlýsing stjórnar Hugins kemur í framhaldi af opnum fundi mennta- og barnamálaráðherra ásamt skólameisturum MA og VMA sem haldinn var í Hofi í dag þar sem kynntar voru tillögur stýrihóps um eflingu framhaldsskóla með sameiningu skólanna tveggja. Á fundinum var upplýst að ráðherra hygðist sameina skólana og að vinna hæfist strax við að greina tækifæri, kosti og galla sameiningar í samstarfi við starfsfólk beggja sk0óla, nemendur og foreldra, undir stjórn skólameistaranna.

Stjórn Hugins bendir á að í skóla af þeirri stærðargráðu sem yrði til með sameiningu myndu nemendur aldrei upplifa sömu nánd við kennara, stjórnendur, stoðteymi eða samnemendur. Nemendur eigi ekki skilið að vera hlekkur í risastórri hagræðingarkeðju ríkisstjórnar.

Þá er áréttað að í vor þegar fréttir bárust af fyrirhugaðri sameiningu hafi nemendum verið lofað að þeir fengju að koma sínum sjónarmiðum á framfæri áður en ákvörðun yrði tekin. Aðgerðir dagsins í dag séu þvert á þau loforð sem mennta- og barnamálaráðuneytið hafi gefið út. Vísað er í könnun sem gerð var innan skólans þar sem 98% sögðust mótfallin sameiningu.

Yfirlýsing stjórnar Hugins er svohljóðandi:

Stjórn Skólafélags Hugins í Menntaskólanum á Akureyri er með öllu mótfallin sameiningu MA og VMA. Í skólakerfi af þessari stærðargráðu munu nemendur aldrei upplifa sömu nánd við kennara, stjórnendur, stoðteymi eða samnemendur. Nemendur eiga ekki skilið að vera lítill hlekkur í risastórri hagræðingarkeðju ríkisstjórnar. Menntaskólinn á Akureyri er eitt virtasta menntasetur á landinu og hefur lengi vel verið þekktur sem skóli hefðanna. Með sameiningu af þessum toga er vegið að öllum okkar hefðum. Nemendur sækja í MA fyrir einstakt félagslíf. Skólinn stendur fyrir óteljandi viðburðum sem fylgja MA-ingum út lífið, þar má nefna árshátíðina, menningarferðina, júbilantahátíðina og margt fleira. Það er því deginum ljósara að með sameiningu myndu þessar hefðir eiga undir högg að sækja. Því spyrjum við mennta- og barnamálaráðuneytið hvernig þau geta með hreinni samvisku fleygt út um gluggann öllu því sem gerir skólann okkar einstakan? Er hagræðing í menntakerfinu meira virði í augum ráðuneytisins en menning og saga skóla um allt land? Gefið var út í dag á vef stjórnarráðsins að ákvörðun liggi fyrir um sameiningu skólanna tveggja og nú fari ferli af stað með nemendur til hliðsjónar. Í vor þegar fréttir bárust um fyrirhugaða sameiningu var nemendum lofað, að áður en ákvörðun yrði tekin fengju nemendur að koma sínu á framfæri. Aðgerðir dagsins í dag eru þvert á þau loforð sem mennta- og barnamálaráðuneytið gaf út. Eftir að hafa lagt könnun fyrir nemendur í Menntaskólanum á Akureyri eru 98% þeirra mótfallin sameiningunni. Við munum ekki standa aðgerðarlaus hjá á meðan að fólk í valdastöðu fer með framtíð okkar eins og þeim sýnist

Við erum framtíðin og við segjum nei.