Fara í efni
Verkmenntaskólinn á Akureyri

„Slyngt yrði þér um margt, frændi ...

... ef ekki fylgdu slysin.“ Svo mælti Þorsteinn Drómundur við hálfbróður sinn Gretti Ásmundarson, sem var vel gefinn og skáldmæltur, og auðvitað sterkastur sinna samtíðarmanna, en átti til að fara fram úr sjálfum sér. Svipað má líklega segja um Ásmund Einar Daðason sem hefur unnið ötullega að því að bæta stöðu barna en núna er slys í uppsiglingu með tillögu um samruna Menntaskólans á Akureyri og Verkmenntaskólans á Akureyri.

Sá sem hér lemur á lyklaborð var formaður skólanefndar Menntaskólans á Akureyri í tíð Jón Más Héðinssonar skólameistara og telur sig þekkja ágætlega til starfsemi og rekstrar þeirrar stofnunar. Þar drýpur ekki smjör af hverju strái, þvert á móti halda stjórnendur skólans fast um peningaveskið og ég get fullyrt að sá sem vill sækja þangað hundruða milljóna sparnað er kominn í geitarhús að leita ullar. Bent hefur verið á rökleysur og vitleysur varðandi sparnaðartillögur menntamálaráðherra svo sem hvað varðar stöðugildi sálfræðinga og námsráðgjafa og margt fleira og hef ég engu við það að bæta. Verð þó að nefna frábæra grein Páls Kristjánssonar um iðnnám á Norðurlandi og fjármögnun VMA.

  • Innskot ritstjóra: grein Páls birtist á Akureyri.net í morgun - sjá hér

Víkjum þá að sögunni og menningunni. Minn gamli og góði skólameistari Tryggvi Gíslason hefur gert þeirri hlið ágæt skil og bent á að Menntaskólinn á Akureyri rekur sögu sína aftur til stólskólans á Hólum í Hjaltadal, sem stofnaður var í upphafi biskupstíðar Jóns helga Ögmundssonar árið 1106. Aðeins einn annar framhaldsskóli á Íslandi kemst eitthvað nálægt því að eiga aðra eins sögu.

Því er ekki að leyna að í umræðu um þéttingu byggðar á Akureyri hefur undirritaður lent lítillega upp á kant við Húsafriðunarnefd, sem berst af harðfylgi fyrir friðun og verndun húsa sem ná 100 ára aldri og lætur sig litlu varða sjónarmið um kostnað, skipulag, þéttingu byggðar, rekstur gatnakerfis, vistvænar samgöngur og fleira. Tugir eða hundruð húsa á Akureyri munu ná þeim aldri á næstu árum og ljóst að eyðileggingarmætti samtímans verður haldið kirfilega í skefjum, í nafni laganna. En hvað skal nú til varnar verða menningararfleifð skólans okkar? Hvar er „Menningarfriðunarnefnd“? Hver slær upp skjaldborg þegar einum ráðherra dettur í hug að leggja niður skóla með 917 ára sögu?

Ég er ekki kristinn maður en mér kemur þó í hug sagan af því þegar tvær konur deildu um hvor ætti barnið sem lifði, Salómon konungur kvað upp þann dóm að höggva skyldi barnið í tvennt og láta hvora fá sinn helming. Hinni ranglátu móður líkaði það vel. En hin rétta móðir grátbað um að barninu yrði þyrmt og frekar gefið hinni konunni. Sýndar hvatir og tilfinningar nægðu til að varpa ljósi á málið. Þessi saga hefur lifað í þrjú þúsund ár enda er hún meistaraverk í einfaldleika sínum. Lesandi góður, hver af sögupersónunum þremur vilt þú vera?

MA-stúdentum líður eins og hinni réttu móður, við finnum til fullnustu, að blómknapp þann gætum við borið og varið, öll yfir æviskeið. Okkur þykir vænt um skólann okkar, við höldum hópinn alla ævi, mætum á stúdentsafmæli, fylgjumst með útskrift nýnema, göngum um skólann og heilsum upp á skólameistara, kennara og starfsfólk. Þetta er einstök samheldni og virðing sem finnst ekki í neinum öðrum framhaldsskóla á Íslandi.

Og síðast en ekki síst, hvað myndi samruni (lesist endalok MA) þýða fyrir nemendur skólans í dag og þau ungmenni á Akureyri og nágrenni sem á næstu árum og áratugum ná framhaldsskólaaldri? MA með sitt bekkjakerfi heyrir sögunni til. Samkennd, félagsstarf með jafnöldrum, söngsalur, útskriftarferð, vinátta fyrir lífstíð – fyrir bí. Búið að „sameina“ MA og VMA. Sameina Þjóðleikhúsið og Sjallann. KEA-skyr og Gunnars-mæjones. Helenu Eyjólfs og Georg Bjarnfreðarson. Fyrirbæri sem eru frábær eins og þau eru og batna ekki við að vera hrært saman.

Nemendur, starfsfólk og velunnarar MA og VMA hafa risið upp gegn hugmyndinni um sameiningu. Fáir hafa lýst yfir stuðningi, nema helst fólk sem á allt sitt undir mildi ráðherrans. Skólameistari VMA segir „Við sameiningu skólanna verður til öflugt skólasamfélag ...“. Enmitt það, við erum með TVÖ slík í dag og til hvers að fækka um eitt? Og skólameistari MA segir: „Virðing fyrir mannlega þættinum og menningu þeirra stofnana sem eiga í hlut skiptir höfuðmáli ...“ svo satt, en virðingin og menningin endast ekki lengi eftir að skóli eða skólar eru lagðir niður. Skólameisturunum er reyndar vorkunn, skilaboð ráðherrans til þeirra eru auðvitað „mæ vei or ðe hævei“.

Það hefur komið fram að 98% nemenda í MA eru á móti sameiningunni, og það er ekki hægt að draga betur saman niðurstöðu málsins en þau gerðu á Ráðhústorgi, þar sem þau sögðu „við erum framtíðin og við segjum nei!“.

Andri Teitsson er MA-stúdent 1986