SÍMEY brautskráði sex af nýrri námsbraut
Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar brautskráði í vikunni sex nemendur á námsbrautinni Færni á vinnumarkaði. Þessi námsbraut var í fyrsta skipti í boði í SÍMEY og öðrum tíu símenntunarmiðstöðvum landsins núna á haustönn. Námið hefur það að markmiði að auka náms- og starfstækifæri fólks með fötlun.
Námið var skipulagt í samstarfi Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, Vinnumálastofnunar, Fjölmenntar og símenntunarmiðstöðvanna í landinu, þar á meðal SÍMEY. Bóklegur hluti námsins var í SÍMEY, samtals 70 klukkustundir, en starfsnámið, 110 klukkustundir, var á vinnustöðum. Nemendurnir sex tóku starfsnám sitt á Akureyri; á leikskólunum Kiðagili, Hulduheimum og Naustatjörn - hjá Fagkaupum (Johan Rönning, Ísleifur og Vatn og veitur), í Ráðhúsi Akureyrar og Hertex.
Jenný Gunnarsdóttir er verkefnastjóri og aðalkennari nemenda á þessari nýju námsbraut í SÍMEY. Hún segir um tilraunaverkefni að ræða og því hafi bæði kennarar og nemendur rennt nokkuð blint í sjóinn um útkomuna. En hún leyfi sér að fullyrða að niðurstaðan hafi verið afar jákvæð og ljóst sé að haldið verði áfram á sömu braut á næsta ári og komandi árum, námsbrautin Færni á vinnumarkaði sé komin til að vera.
Í bóklega hluta námsins er víða komið við, m.a. er horft til almennrar starfshæfni, vinnustaðamenningar, heilsueflingar, sjálfseflingar, geðræktar, samskipta, tímastjórnunar og færslu verkdagbóka.
Á vinnustöðunum fengu þátttakendur leiðsögn starfsmanna og vill Jenný verkefnastjóri koma á framfæri kærum þökkum til þeirra fyrir þátttöku í verkefninu, því án samstarfs við atvinnulífið væri verkefni af þessum toga ekki mögulegt.