Fara í efni
Verkmenntaskólinn á Akureyri

Öruggur Þórssigur – Maddie í frákastastuði

Maddie Sutton, til hægri, tilbúin að hirða frákast, eins og alltaf. Úr fyrri leik Þórs og Grindavíkur í vetur. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Þór vann öruggan sigur á Grindvíkingum í Bónusdeild kvenna í körfuknattleik í dag og fór upp í 2. sætið, a.m.k. um tíma. Maddie Sutton var áfram áberandi í fráköstunum og tók 20 fráköst í fyrri hálfleiknum. Esther Fokke skoraði mest Þórskvenna, 27 stig.

Þórsliðið byrjaði leikinn vel á meðan Grindvíkingum gekk illa að koma boltanum ofan í körfuna. Munurinn var kominn í 15 stig áður en fyrsti leikhluti var hálfnaður, tvö stig Grindvíkinga gegn 17 stigum Þórs. Báðum liðum gekk reyndar brösuglega að skora í öðrum leikhluta, lengst af, en Þórsliðið þó áfram með örugg tök á leiknum.

Athygli vakti að Maddie Sutton tók 12 fráköst í fyrsta leikhlutanum og hélt uppteknum hætti í öðrum leikhluta, en gekk þó ekki jafn vel að skora. Sjaldgæft að sjá leikmann skora eitt stig í fyrri hálfleik og taka á sama tíma 20 fráköst! Hún skoraði sína fyrstu körfu þegar sex og hálf mínúta var eftir af þriðja leikhluta. Þá hafði hún tekið 21 frákast. Þegar upp var staðið spilaði hún 32 mínútur og tók 26 fráköst. 

Þriðji leikhluti var heldur jafnari og seinni hálfleikurinn almennt slakari hjá Þórsliðinu en sá fyrri. Það skipti þó ekki máli hvað úrslit leiksins varðar og ef til vill eðlilegt að krafturinn væri ekki jafn mikill allan leikinn enda aðeins sjö leikmenn í hóp og stutt í næsta leik, stórleik gegn Keflvíkingum á heimavelli miðvikudagskvöldið 8. janúar.

Esther Fokke var stigahæst Þórsara með 27 stig. Hjá Grindvíkingum var Ólöf Rún Óladóttir stigahæst með 22 stig. Þór fór upp í 2. sæti deildarinnar með sigrinum, en 12. umferðinni er þó ekki lokið. Njarðvík og Tindastóll mætast í kvöld og Keflavík og Valur mætast á morgun. Tvö þessara liða geta náð Þórsliðinu með sigri, en liðið hefur nú unnið átta leiki og tapað fjórum. 

  • Gangur leiksins: Grindavík - Þór (9-26) (12-19) 21-45 (18-19) (25-20) 64-84 
  • Byrjunarlið Þórs: Amandine Toi, Emma Karólína Snæbjarnardóttir, Esther Fokke, Eva Wium Elíasdóttir, Maddie Sutton.
  • Staðan í deildinni
  • Ítarleg tölfræði leiksins

Helstu tölur leikmanna Þórs, stig/fráköst/stoðsendingar:

  • Esther Fokke 27 - 6 - 2 - 27 framlagsstig
  • Amandine Toi 22 - 3 - 6
  • Eva Wium Elíasdóttir 14 - 6 - 2
  • Natalia Lalic 8 - 6 - 3
  • Emma Karólína Snæbjarnardóttir 7 - 2 - 0
  • Maddie Sutton 4 - 26 - 4 - 27 framlagsstig
  • Katrín Eva Óladóttir 2 - 2 - 0