Fara í efni
Verkmenntaskólinn á Akureyri

Gamli skóli af Tuliniusarbryggju

GAMLI SKÓLI – 4

  • Í þessum mánuði eru 120 ár síðan hið gamla, glæsilega skólahús Menntaskólans á Akureyri var tekið í notkun. Akureyri.net birtir af því tilefni einn kafla á dag út mánuðinn úr bókinni Lifandi húsið - saga gamla skólahúss Menntaskólans á Akureyri.

Mynd þessi er á póstkorti, sem varðveist hefur í Þjóðminjasafni, og er hún sennilega tekin sumarið 1909 af Tuliniusarbryggju sem nefnd er Akureyri Bro Island á póstkortinu. Gamli skóli trónir á brekkubrúninni en að baki honum er Leikfimishúsið frá 1905 og er ekki búið að byggja sunnan við það sem gert var 1911. Efst til hægri er íbúðarhúsið að Barði sem flutt var sunnan af Höfða árið 1900.

Myndin er tekin úr siglutré skips sem liggur austan við bryggjuna. Verið er að landa síld og salta úr Súlunni SU1, sem Otto Tulinius, kaupmaður á Akureyri, keypti árið 1906 af Konráði Hjálmarssyni, kaupmanni og útgerðarmanni á Mjóafirði og Norðfirði.

Húsaröðin við Hafnarstræti reis á árunum 1903 til 1907. Syðst er hús Axels Schiöths bakara nr. 23, og nyrst hús Hallgríms Einarssonar ljósmyndara nr. 41, en bæði húsin voru reist 1903. Ofar í brekkunni eru húsin við Spítalaveg, syðst sjúkrahúsið, reist 1898, gegnt því Spítalavegur 8, sem Kristján Sigurðsson kaupmaður reisti 1903 og Stefán Stefánsson keypti 1905 og bjó þar til 1908 er hann tók við starfi skólameistara og fluttist í skólameistaraíbúðina í Gamla skóla. Ofar við Spítalaveg eru húsin nr. 15, 17 og 19 sem reist eru á áunum 1906, 1907 og 1908. Húsið við Spítalaveg 15 byggðu þeir Ólafur Tryggvi Ólafsson, verslunarmaður frá Borgarhóli í Eyjafirði, og Sigurgeir Jónsson, söngkennari og organisti frá Stóruvöllum í Bárðardal, árið 1906. Efst er Spítalavegur 19, byggt 1908, og virðist fullgert þegar myndin er tekin.

Víða má sjá girðingar umhverfis túnbleðla og garðholur Akureyringa og röð af símastaurum að baki húsunum við Hafnarstræti sem reistir voru sumarið 1906 þegar síminn kom til landsins.

  • Gamli skóli af Tuliniusarbryggju er kafli úr bókinni Lifandi húsið - saga gamla skólahúss Menntaskólans á Akureyri sem Völuspá gaf út árið 2013. Höfundur bókarinnar er Tryggvi Gíslason, skólameistari frá 1972 til 2003.