Fara í efni
Umhverfismál

Undirbúa samkeppni vegna Akureyrarvallar

Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Bæjarráð Akureyrar hefur skipað fimm manns í vinnuhóp sem ætlað er að útbúa samkeppnislýsingu fyrir hugmyndasamkeppni um skipulag Akureyrarvallar. Vinnu hópsins á að vera lokið 15. janúar 2025.

Akureyri.net fjallaði einnig um málið eftir að skipulagsráð samþykkti í september að koma á fót vinnuhópi í þessum tilgangi. 

Í erindisbréfi vinnuhópsins er farið lauslega yfir það sem gert hefur verið undanfarna tæpa tvo áratugi. Lengi hefur verið stefnt að breytingum á landnotkun svæðisins þar sem Akureyrarvöllur stendur. Undirbúningur hófst árið 2007 með breytingu á skipulagi svæðisins og síðla árs 2009 lá fyrir tillaga vinnuhóps um uppbyggingu svæðisins. Ekki varð þó neitt úr framkvæmdum út frá þessari vinnu. 

Skilgreint miðbæjarsvæði

Akureyrarvallarsvæðið varð að skilgreindu miðbæjarsvæði (M1) með breytingum á aðalskipulagi Akureyrar sem tóku gildi 2018. Svæði vallarins var þá skilgreint sem þróunarsvæði með 100-150 íbúðum í 2ja-3ja hæða fjölbýlishúsum og „byggð hagað þannig að hún myndi fagra aðkomu að miðbæjarsvæðinu ásamt sýn frá Glerárgötu á íbúðarhúsabyggðina við Brekkugötu,“ eins og segir í erindisbréfinu. 

Fyrsta skrefið fyrir hugmyndasamkeppnina um skipulag svæðisins er að vinna gerð samkeppnislýsingar og er sú vinna nú að hefjast með skipun þessa vinnuhóps. Í framhaldinu verður gerður samningur milli Akureyrarbæjar og Arkitektafélags Íslands um framkvæmd samkeppninnar. 

Í vinnuhópinn hafa nú verið skipuð þau Þórhallur Jónsson (D), Hulda Elma Eysteinsdóttir (L), Hlynur Jóhannsson (M), Jón Hjaltason (óháður) og Sindri Kristjánsson (S).