Fara í efni
Umhverfismál

Umfangsmesta mengunarslys á vatnsverndarsvæði Norðurorku

Starfsmenn Norðorku við vinnu á slysstað í morgun. Mynd af vef Norðurorku

Olía lak úr rútu sem valt út af veginum í Öxnadal í gær og mengunarslysið er hið mesta sem orðið hefur á vatnsverndarsvæði Norðurorku. Þetta kemur fram á vef fyrirtækisins.

Umrætt vatnsverndarsvæði nær inn að vatnaskilum á Öxnadalsheiði og fljótlega kom í ljós að mikilvægt væri að grípa til aðgerða til að fyrirbyggja að mengunin hefði áhrif á vatnsverndarsvæðið.

Í tilkynningu á vef Norðurorku segir meðal annars:

  • Neysluvatnsdæling frá vatnstökusvæðinu á Vöglum var stöðvuð af öryggisástæðum og mengunarvarnabúnaði komið fyrir í og við ána.
  • Árkvísl sem liggur næst veginum var stífluð ofan við slysstað til að stöðva vatnsrennsli við mengaðan árbakkann.
  • Þegar mengaður jarðvegur var grafinn upp safnaðist fyrir olía í holunni og var gripið til þess ráðs að brenna olíuna til að eyða henni á staðnum og fyrirbyggja að hún færi lengra.
  • Seinna kom dælubíll á staðinn og var olíunni þá dælt upp.
  • Mat Norðurorku og Heilbrigðiseftirlitsins er að búið að sé að ná stjórn á aðstæðum og tryggja að olíulekinn hafi ekki áhrif á vatnstökusvæðið sjálft.
  • Neysluvatnsdæling frá Vöglum er því hafin að nýju. Starfsfólk Norðurorku og verktakar eru enn á staðnum að hreinsa upp mengaðan jarðveg og ferja hann út af vatnsverndarsvæðinu.
  • Ljóst er að þetta mengunarslys er það umfangsmesta sem orðið hefur á vatnsverndarsvæði Norðurorku. Skjót og rétt viðbrögð skipta sköpum við aðstæður sem þessar en unnið er samkvæmt viðbragðsáætlun vatnsveitu og neyðarstjórn Norðurorku var virkjuð. 

HVAÐ ER VATNSVERNDARSVÆÐI?

Á vef Norðurorku er fjallaðð um vatnsverndarsvæði, þar sem segir meðal annars:

Kalda vatnið flokkast sem matvara og því eru gerðar strangar kröfur um vatnsvernd.

Í kringum vinnslusvæðin okkar hafa verið skilgreind vatnsverndarsvæði og ræðst stærð og lögun þeirra af landfræðilegum aðstæðum. Vatnsverndarsvæði skiptast í brunnsvæði, grannsvæði og fjarsvæði og eru þau skilgreind nánar í reglugerð.

Vaglir við Þelamörk í Hörgársveit

  • Þar sem vatnsverndarsvæðin í Hlíðarfjalli anna ekki vatnsþörf Akureyringa þurfa Akureyringar einnig, til viðbótar við vatnsverndarsvæðin í Hlíðarfjalli, að treysta á vatnsverndarsvæðið á Vöglum í Hörgárdal
  • Á Vaglaeyrum hafa verið boraðar holur í eyrar Hörgár og er vatni dælt upp úr þeim og til Akureyrar. Eins og sjá má á myndinni hér að neðan þá er vatnsverndarsvæðið tiltölulega stórt enda er fjarsvæðið í raun allt vatnasviðið.
  • Þjóðvegur 1 liggur í gegnum grannsvæðið, rétt ofan brunnsvæðis, með tilheyrandi ógn fyrir vatnsverndina á svæðinu.

Umrætt vatnsverndarsvæði er mjög víðfemt eins og sjá má á þessari mynd.

Starfsmenn Norðurorku við vinnu í Öxnadal í morgun.