Fara í efni
Umhverfismál

Tímabundin afnot í Ytra-Krossanesi

Töluverður fjöldi bíla hefur verður færður að Ytra-Krossanesi.

Bílapartasalan Auto ehf., sem staðsett er á Svalbarðsströnd, en er án starfsleyfis þar, hefur fengið tímabundin afnot af landi í Ytra-Krossanesi. Þetta staðfestir Jón Birgir Gunnlaugsson, verkefnastjóri umhverfismála á umhverfis- og mannvirkjasviði Akureyrarbæjar. Gerður var tímabundinn samningur við Auto um afnot af landi í Ytra-Krossanesi gegn því að eigandinn fjarlægði bíla af lóðum og lendum Akureyrarbæjar og kæmi annaðhvort í förgun eða í sölu. Samningurinn hljóðar hins vegar ekki upp á að koma með bíla frá öðrum sveitarfélögum, að sögn Jóns Birgis.

Samkvæmt upplýsingum frá Leifi Þorkelssyni, heilbrigðisfulltrúa og framkvæmdastjóra Heilbrigðisnefndar Norðurlands (HNE), hefur bílum á lóðinni við Hamragerði 15 fækkað á undanförnum vikum og jafnframt hefur bílum á vegum Auto ehf. sem HNE hefur haft afskipti af innan bæjarmarka Akureyrar fækkað verulega að undanförnu. 
 
Eins og áður hefur komið fram í fréttum á Akureyri.net hefur HNE lagt dagsektir á lóðarhafann að Hamragerði 15 frá því í lok febrúar, en Leifur tekur fram að óinnheimtar dagsektir falli ekki sjálfkrafa niður þótt úr hafi verið bætt, nema þá að heilbrigðisnefnd ákveði það sérstaklega samkvæmt heimild í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir (3. mgr. laga nr. 7/1998). Leifur segir HNE hafa að undanförnu beint þeim tilmælum til Auto ehf. að koma ökutækjum fyrirtækisins fyrir á til þess ætluðum svæðum og lóðin í Krossanesi henti ágætlega til þess, en þó aðeins til skamms tíma, það sé öllum ljóst. Það virðist þó ekki ganga upp varðandi flutning á bílhræjum frá Svalbarðsströnd yfir í Ytra-Krossanes samkvæmt svari Jóns Birgis.
 
HNE fær reglulega ábendingar um númerslausa bíla hér og þar sem starfsmenn líma miða á, en Leifur segir að það sé enginn einn einstakur sem sé sérstaklega áberandi varðandi þau mál.