Fara í efni
Umhverfismál

Þykir miður að bent sé á hótelið en fagnar umræðu

Hótel Kjarnalundur í Kjarnaskógi. Mynd af vef hótelsins.
Hildur Magnúsdóttir, hótelstjóri Hótels Kjarnalundar, segir miður að bent sé á rekstraraðila þar á bæ vegna vandræða með rotþrær í Kjarnaskógi en fagnar umræðu um málið og vonar að hún „leiði til haldbærrar lausnar fyrir þennan hluta Akureyrarbæjar.“
 
Hildur segir þrjár rotþrær í skóginum, tvær vegna sumarhúsa og ein fyrir Hótel Kjarnalund. „Við vonum og höfum bent á að best væri ef það yrði sett upp sameiginleg nútímaleg umhverfisvæn rotþró fyrir hótelið, sumarhúsin, tjaldstæði og íbúðarhús á svæðinu,“ segir Hildur í skriflegu svari til Akureyri.net vegna umfjöllunar um málið.
 
Í gær birti Akureyri.net grein Elínar Kjartansdóttur, sem ólst upp á Brunná við afleggjarann upp í Kjarnaskóg, þar sem hún lýsir því hvernig óhreinsað skólp úr klóaki frá Hótel Kjarnalundi renni óáreitt út í brekku í Brunnárgili og í Brunnána.
 
Bærinn byggði rotþróna
 
„Okkur þykir miður að það sé verið að benda á okkur sem orsakavald þegar við erum að reyna að betrumbæta rotþró sem byggð var af Akureyrarbæ vegna reksturs á öldrunarheimili sem þá var starfrækt í húsinu,“ segir Hildur.
 
Hún segir að rotþróin frá hótelinu hafi verið þjónustuð reglulega af viðurkenndum aðilum og losuð einu sinni í mánuði með tilheyrandi háum kostnaði.
 
„Síðan rekstur hótelsins hófst hefur verið ítrekað haft samband við bæði Akureyrarbæ og Norðurorku um tengingu inn á frárennsliskerfi bæjarins og hvenær þess megi vænta. Engin haldbær svör hafa borist og mörg þeirra mjög misvísandi. Í sumar var ákveðið að fara í endurbætur á rotþrónni til að lækka þennan háa losunarkostnað, þær framkvæmdir standa enn yfir,“ segir hótelstjórinn. Hildur bætir við að við framkvæmdirnar hafi komið í ljós að hluti kerfisins hafi ekki þjónað réttum tilgangi og von sé á betrumbótum hvað það varðar.
 
Annar illa starfseminni
 
Í svari Heilbrigðiseftirlits Norðurlands (HNE) við fyrirspurn Akureyri.net vegna málsins kemur fram að legið hafi fyrir í einhvern tíma að rotþró við hótelið annaði illa starfsemi, ekki hefði þó orðið vart við að skólp frá rotþrónni bærist út í umhverfið umhverfis hana en aftur á móti hefði komið í ljós að siturlögn er á öðrum stað en áður var talið og greinilegt að hún þjóni ekki hlutverki sínu þar sem sírennsli er út úr lögninni við enda hennar. HNE kveðst hafa farið fram á úrbótaáætlun frá rekstraraðila og að rotþróin verði tæmd, ásamt áherslu á að rennsli frá henni verði stöðvað þar til gengið hefur verið frá nothæfum fráveitumannvirkjum.
 

Vonandi fæst haldbær lausn

Svar Hildar Magnúsdóttur hótelstjóra er svohljóðandi í heild:

 
Okkur þykir miður að það sé verið að benda á okkur sem orsakavald þar sem í skóginum okkar eru þrjár rotþrær, tvær vegna sumarhúsa sem staðsett eru í Kjarnaskógi og ein fyrir Hótel Kjarnalund.
 
Rotþróin frá hótelinu hefur verið þjónustuð reglulega frá viðurkenndum aðilum og losuð einu sinni í mánuði með tilheyrandi háum kostnaði.
 
Síðan rekstur hótelsins hófs hefur verið ítrekað haft samband við bæði Akureyrarbæ og Norðurorku um tengingu inn á frárennsliskerfi bæjarins og hvenær þess megi vænta. Engin haldbær svör hafa borist og mörg þeirra mjög misvísandi. Í sumar var ákveðið að fara í endurbætur á rotþrónni til að lækka þennan háa losunarkostnað, þær framkvæmdir standa enn yfir. Við þessar framkvæmdir hefur komið í ljós að hluti kerfisins hefur ekki verið að þjóna réttum tilgangi og því er því von á betrum bótum þar.
 
Okkur þykir miður að það sé verið að benda á okkur sem orsakavald þegar við erum að reyna að betrum bæta rotþró sem byggð var af Akureyrarbæ vegna reksturs á öldrunarheimili sem þá var starfrækt í húsinu.
 
Við fögnum þó þessari umræðu sem hefur opnast og vonum að hún leiði til haldbærar lausnar fyrir þennan hluta Akureyrarbæjar. Við vonum og höfum bent á að best væri ef það yrði sett upp sameiginleg nútímaleg umhverfisvæn rotþró fyrir hótelið, sumarhúsin, tjaldstæði og íbúðarhús á svæðinu.
 
Fyrri fréttir um málið:
 
 

HNE hefur farið fram á úrbótaáætlun