Fara í efni
Umhverfismál

Stærsta bílaleigan skráir allan flotann á Akureyri

Í framhaldi af frétt á Akureyri.net á dögunum um grein Guðmundar Hauks Sigurðarsonar, framkvæmdastjóra Vistorku, um fjölgun skráðra ökutækja í hlutfalli við fjölgun íbúa á Akureyri er fróðlegt að rýna í töflu sem Guðmundur Haukur birti með grein sinni, Bifreiðar og ferðavenjur á Akureyri. Taflan hér að neðan sýnir hluta þeirra upplýsinga sem Guðmundur Haukur birti, en hann var einnig með tölur fyrir 1. desember 2019 og 2023 til samanburðar þar sem innan hvers árs geta verið sveiflur í fjölda skráninga.

Margir bílaleigubílar skráðir hér

Þegar rýnt er í tölurnar kemur í ljós að fjölgun ökutækja sem skráð eru á Akureyri er mest hjá bílaleigunum. Samanlagt hefur ökutækjum sem skráð eru á Akureyri fjölgað um 6.058, sem er 21%, frá 1. ágúst 2019. Þar af eru ríflega 3.300 bílaleigubílar, en þeim hefur fjölgað um 59% á sama tímabili. Það er hins vegar erfitt að reikna út nákvæmlega hve margir bílaleigubílar af þessari fjölgun eru í umferðinni á Akureyri, af ýmsum ástæðum. Ökutækjum skráðum á Akureyri, öðrum en þeim sem eru í útleigu, hefur fjölgað um 12% á sama tímabili.

Stærsta bílaleiga landsins, Bílaleiga Akureyrar, er rekin frá Akureyri og allur flotinn skráður í heimabænum. Ökutækjum í útleigu fækkaði á tímum heimsfaraldursins og til að mynda var Bílaleiga Akureyrar með um 4.300 ökutæki á skrá í maí 2021, en eru með um 8.300 í dag. Ökutækjum í útleigu, skráðum á Akureyri, hefur fjölgað úr 4.771 ökutæki í 7.579 frá 1. ágúst 2019 samkvæmt töflu Guðmundar Hauks, eða um 2.808 ökutæki, sem er 59% fjölgun á fimm árum. Hann miðar við að 85% ökutækja sé í umferð. 

Bifhjólum hefur fækkað

Fjölgun skráðra ökutækja er mismikil eftir flokkum, en athygli vekur að skráðum bifhjólum hefur fækkað um fimm af hundraði á þessu fimm ára tímabili. Ef frá eru talin ökutæki á borð við dráttarvélar, snjósleða og eftirvagna fjölgaði skráðum ökutækjum á Akureyri um 4.955 á undanförnum fimm árum, hlutfallslega mest í flokki sendibifreiða.

Tölur um fjölda skráðra ökutækja einar og sér segja ekki alla söguna um umferð innan bæjarmarkanna enda er góður hluti fjölgunar skráðra ökutækja á Akureyri til komin vegna ökutækja í útleigu. En aftur á móti eru fjölmargar bifreiðar í langtímaleigu hjá fyrirtækjum, stofnunum og félagasamtökum í bænum og eru þar með hluti af umferðinni á Akureyri. Þar að auki eru auðvitað fjölmargar bifreiðar sem ekki eru skráðar á Akureyri í umferðinni hér í bæ á hverjum tíma, til dæmis bifreiðar ferðamanna og þeirra sem hér dvelja í lengri eða skemmri tíma og aka á bifreiðum sem skráðar eru annars staðar.


Ökumenn, sem velja eða þurfa að nota bílinn, vilja ekki sitja fastir í umferðarteppu. Fólk sem getur ekki notað eða velur að nota ekki bílinn vill geta ferðast um bæinn af öryggi og notið góða loftsins. Mynd: Unsplash.com.

Ökutæki í útleigu eru líka í umferðinni

Einkabílaeigendur benda margir á að fjölgunin sé ekki þeim að kenna og vísa á fjölgun ökutækja í eign bílaleiganna og vissulega er þar mikil fjölgun á nokkrum árum, sérstaklega eftir lok heimsfaraldurins. Bílaleigubílar geta þó ekki verið hvergi, þeir eru í umferðinni. Guðmundur Haukur vekur einmitt athygli á þessu í athugasemd á Facebook undir fréttinni að bílaleigubílar séu í umferðinni og það jafnvel meira en aðrir bílar. Þeir þurfi líka sitt pláss í bæjarlandinu.

Meginatriðið í því sem Guðmundur Haukur benti á var að ökutækjum fjölgar á meðan meginsamgönguinnviðir á Akureyri standi að mestu í stað. Hann minnir á að höfuðborgarsvæðið sé að bregðast við þessari þróun alltof seint, en hér á Akureyri sé enn tækifæri til að bregðast við áður en allt verður komið í óefni. Hann segir að málið sé að við viljum öll hafa það gott í umferðinni. Þau sem þurfa eða velja að nota bíl vilji ekki vera föst í umferðarteppum og þau sem geta ekki notað eða velja að nota ekki bíla vilji geta ferðast um bæinn örugg og notið góða loftsins – þetta þurfi allt að fara saman.