Fara í efni
Umhverfismál

Skipin: ávinningur eða átroðningur?

Norwegian Star við Oddeyrarbryggju. Annað risafley sama skipafélags, Norwegian Prima, verður á sama stað í dag. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

SKEMMTIFERÐASKIP - I

Metfjöldi skemmtiferðaskipa og farþega þeirra heimsækja Akureyri á þessu ári og sýnist sitt hverjum um það. Bæjarráð hefur fjallað um þetta málefni að undanförnu, óskaði eftir fundi með hafnarstjóra og fulltrúum Akureyrarbæjar í hafnarstjórn og ályktaði síðan um þessi mál á fundi sínum í liðinni viku eins og fram kom í frétt á Akureyri.net. 

Akureyri.net ætlar að fjalla ítarlega um þessi mál á næstu dögum frá hinum ýmsu hliðum, jákvæðum og neikvæðum. Skemmtiferðaskip eru nefnilega meira en bara það sem háværast er í umræðunni – útblástur og átroðningur.

  • Á MORGUN Ýta undir komu umhverfisvænni skipa


Fjölmennið í bænum á annasömustu dögum við móttöku skemmtiferðaskipa angrar sumt fólk. Það hefur líklega ekki átt við þegar þessi mynd var tekin í slyddu sem tók á móti farþegum 15. maí í vor. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Daglegar fréttir hér á Akureyri.net af komum skemmtiferðaskipa hafa fengið misgóðar viðtökur á meðal lesenda þegar fréttum er deilt á samfélagsmiðlum, en þó varla hægt að segja að stór hópur fólks tjái sig um þetta málefni. Oftast er þó rætt um neikvæðu hliðarnar, aðallega útblásturinn frá skipunum.

Neikvæðu þættirnir meira áberandi

Tilefni þess að bæjarráð veitir þessu máli athygli er væntanlega fjölgun skipa og farþega sem hingað koma og sá neikvæði tónn sem borið hefur á í umræðum og skoðanaskiptum um þessi mál. Neikvæði tónninn er einkum sprottinn af tvennu, annars vegar af meintri mengun – ef til vill þó réttara að nota orðið útblástur því athyglin beinist einkum að honum – og hins vegar þeim fjölda farþega sem flykkjast í bæinn eða fara í skoðunarferðir á sama tíma. Minna er fjallað og spjallað um tekjur sem sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklingar hafa af því að þjónusta skipin og farþegana, þann fjölda starfa sem þessi þjónusta skapar og jákvæð áhrif sem heimsóknirnar hafa á viðhorf gestanna til landsins.

Umræðan er árleg og þá jafnan hnýtt við að þessi skip – eða farþegarnir – skilji ekkert eftir sig. Nema þá útblásturinn og óþægindin. Fremur þröngsýnt að horfa þannig á hlutina því komum skemmtiferðaskipa fylgir efnahagslegur og jafnvel menningarlegur ávinningur sem að miklu leyti er hægt að rannsaka og meta. Efnahagslegi þátturinn er líklega stærri en fólk gerir sér grein fyrir eða umræðan gefur tilefni til að halda. Efnahagslegur ávinningur verður ekki krufinn til mergjar í þessari umfjöllun, en þó vikið að honum og tekin nokkur dæmi síðar, meðal annars út frá sjónarhorni fulltrúa nokkurra fyrirtækja og stofnana sem þjónusta allt þetta fólk.

Geta tekið við fimm þúsund á dag

Akureyrarhöfn ræður við að hámarki fimm þúsund farþega skemmtiferðaskipa á dag, en það eru nokkru fleiri en allir íbúar Seltjarnarness, Vestmannaeyja eða Skagafjarðar, svo dæmi séu tekin. Örlítið færri en allir íbúar Fjarðabyggðar eða Múlaþings.

Nú er langt liðið á það tímabil sem skemmtiferðaskipin eru á ferðinni við Ísland. Þegar því lýkur munu skip hafa komið alls 279 sinnum til hafnar á Akureyri, Hjalteyri, í Hrísey og Grímsey á árinu, samtals með hátt í 300 þúsund farþega og tæplega 130 þúsund áhafnarmeðlimi.


Fljótandi þorp á stærð við Seltjarnarnes, en væntanlega ekki leikhús á Nesinu eins og þetta um borð í Sky Princess. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Eins og gefur að skilja fylgir þessum fjölda margs konar úrgangur, en stór hluti þess úrgangs myndi falla til þó þetta sama fólk væri heima hjá sér eða ferðaðist með öðru móti til annarra landa. Íslendingum sem fljúga og flykkjast á sólarstrendur eða aðra staði erlendis fylgir líka úrgangur sem verður eftir á þessum stöðum – en á sama tíma skilur það fólk ekki eftir sig úrgang á heimaslóðum. Ekki frekar en farþegar skemmtiferðaskipanna. Er kannski bara best að við hættum öll að ferðast?

Við skiljum líka eftir okkur umhverfisfótspor – eða mengun – á heimaslóðum. Dæmi um það, þó það sé ekki umfangsmikið í stóra samhenginu, er þegar forvitni okkar dregur okkur – á bensín- og dísilbílum – niður að höfn þegar stór skip leggja að bryggju. Við hefðum getað sleppt því að fara og skoða. Við hefðum getað gengið niður á höfn.

Skemmtiferðaskipin óvenju góður kostur

Það er hins vegar áhugavert að skoða hvernig unnið er með úrgang sem til fellur í skemmtiferðaskipum. Þegar á allt er litið má vel halda því fram að skipin séu einmitt óvenju góður kostur miðað við margt annað því þar er allt flokkað og endurunnið og ekkert sorp skilið eftir í landi, öfugt við það til dæmis þegar fólk ferðast um á bílaleigubílum á eigin vegum um landið og gistir á hótelum.


Þessar flokkunartunnur eru ekki hátæknibúnaður, en engu að síður hluti af gríðarlega umfangsmiklu kerfi flokkunar og endurvinnslu hvers konar úrgangs og umbúða sem til falla um borð í Sky Princess. Mynd: Haraldur Ingólfsson.

Hér að framan var hámarksfjöldinn sem Akureyrarhöfn getur tekið við daglega borinn saman við íbúafjölda sveitarfélaga. Fimm þúsund manns á sama deginum – hve líklegt er að fimm þúsund ólíkir einstaklingar flokki allt og endurvinni á heimilum sínum og vinnustöðum með jafn skilvirkum hætti og gert er um borð í tæknivæddustu skemmtiferðaskipunum eins og Sky Princess sem hér var á ferð fyrr í sumar með samtals tæplega fimm þúsund manns um borð? Líklega engar.

Gríðarlega umfangsmikil og tæknivædd endurvinnsla um borð í skipunum gerir það að verkum að umhverfisfótspor farþega sem kemur með skemmtiferðaskipi er alltaf minna en þeirra sem koma með flugi og fara akandi um landið á bílaleigubílum.