Fara í efni
Umhverfismál

Samgönguappið Flæði tilbúið í prófanir

Smáforritið Flæði er tilbúið fyrir prófanir og er nú leitað að nýjungagjörnum Akureyringum til að prófa virkni þess og benda á hluti sem betur mættu fara. Greint er frá þessu á vef Akureyrarbæjar. Flæði er afurð verkefnis sem Akureyrarbær og Vistorka eru þátttakendur í. Verkefninu, Raptor sem er á vegum EIT Urban Mobility, er ætlað að para saman sveitarfélög og sprotafyrirtæki í því skyni að prófa nýjar lausnir sem styðja við breyttar ferðavenjur.

Franska sprotafyrirtækið Instant System hefur unnið verkefnið á Akureyri og þróað samgönguappið Flæði sem ætlað er að aðstoða notandann við að komast leiðar sinnar með almenningssamgöngum, hjólandi eða gangandi. Með vorinu bætast hopphjólin við og verður þá hægt að tengja saman mismunandi ferðamáta. 

Nánari upplýsingar um samgönguáskorunina sem Akureyri er þátttakandi í má finna í frétt á Akureyri.net frá apríl í fyrra. Þeim sem hafa áhuga á að taka þátt í prófunum á appinu er bent á að hafa samband við Ísak Má Jóhannesson, verkefnisstjóra úrgangs- og loftslagsmála, með tölvupósti í netfangið isakj@akureyri.is.