Fara í efni
Umhverfismál

Saman gegn sóun: Hvað eru úrgangsforvarnir?

Opinn fundur um úrgangsmál verður haldinn í Hofi 9. apríl. Mynd: Unsplash/ Sigmund

Opinn fundur um úrgangsmál verður haldin í Hofi á þriðjudag í næstu viku, 9. apríl. Það er verkefnið Saman gegn sóun sem Umhverfisstofnun heldur utan um sem stendur fyrir fundinum. Í fréttatilkynningu segir að stofnuninni hafi verið falið að endurskoða stefnu stjórnvalda um úrgangsforvarnir, og mikilvægur liður í þeirri vinnu sé að fá innsýn í sjónarmið fólks, fyrirtækja, sveitarfélaga og stofnana um land allt.

Fundurinn er opinn öllum sem hafa áhuga á málefninu, en sérstaklega er höfðað til starfsfólks sveitarfélaga, fyrirtækja og stofnana að mæta. Fundurinn verður frá kl. 9.00 - 11.30 og þáttakendur fá fræðslu um þau tækifæri sem liggja í bættri nýtingu og minni sóun og færi á að koma með tillögur að aðgerðum.

En hvað eru úrgangsforvarnir? Spurningar sem flokkast undir úrgangsforvarnir eru t.d. hvernig hægt sé að koma í veg fyrir að verðmæti verði rusl, hvernig hlutir, efni og auðlindir séu best nýtt, hvernig fjármagn og regluverk geti hjálpað fyrirtækjum í átt að minni sóun og fleira. Hver er ávinningurinn að því að leggja vinnu í það að minnka sóun, og hvernig er best að gera það?  

Þáttakendur fá tækifæri til þess að hafa bein áhrif á stefnu stjórnvalda í úrgangsmálum á fundinum. Starfsfólk Saman gegn sóun hjá Umhverfisstofnun segir frá verkefninu og hver staðan sé á Íslandi. Hrönn Björgvinsdóttir, starfsmaður Amtsbókasafnsins heldur erindi um tækifærin í deilihagkerfinu og Arnar Snorrason frá Sæplasti heldur erindi um hvernig má halda samkeppnisforskoti á alþjóðamörkuðum í 40 ár á forsendum umhverfisins.

Þáttaka er ókeypis á fundinum, en það þarf að skrá sig. 

Hér er tengill á Facebook viðburðinn.