Fara í efni
Umhverfismál

Rannsóknarþættinum alltaf vel sinnt

Rannsóknarhola boruð við Síðuskóla á Akureyri seint á síðasta ári. Ljósmyndir: Hjalti Steinn Gunnarsson

VATN – II

Norðurorka stendur frammi fyrir áskorunum við öflun á heitu vatni fyrir Akureyri og nágrenni. Innstreymi sjávar í borholur við Hjalteyri setur strik í reikninginn. Rannsóknir standa yfir á ástæðunni og mögulegum mótvægisaðgerðum, en jafnframt hraðar þessi staða vinnu við önnur svæði.

Akureyri.net heldur áfram að fjalla um heita vatnið og það eru Hjalti Steinn Gunnarsson, sviðsstjóri framkvæmdasviðs Norðurorku, og Hörður Hafliði Tryggvason, fagstjóri hita- og vatnsveitu, sem fræða lesendur um stöðu mála.

Þeir Hjalti Steinn og Hörður segja að í raun búi Norðurorka að því að hafa átt erfiða byrjun þegar heitt vatn fannst á Laugalandi í þáverandi Öngulsstaðahreppi – nú Eyjafjarðarsveit – undir lok áttunda áratugar liðinnar aldar. Vegna vandræða sem þá komu upp hafi Norðurorka alltaf lagt áherslu á að sinna rannsóknarþættinum mjög vel. Nú reynir líka á þekkingu og útsjónarsemi til að viðhalda núverandi kerfi, leita lausna til að geta haldið áfram að nýta heita vatnið við Hjalteyri, hraða vinnu við þau svæði sem eru næst á dagskránni, hefja að nýju rannsóknir og vinnu við svæði sem hafa áður verið skoðuð og mögulega leita nýrra svæða þar sem ákjósanlegt væri að bora og leita að heitu vatni.

Búum að því að hafa átt erfiða byrjun

„Hjalteyri er mjög öflugt svæði, eitt öflugasta lághitasvæði á landinu,“ segir Hjalti Steinn. Hann bendir á að Norðurorka búi í raun enn í dag vel að því að hafa átt frekar erfiða byrjun. Þar vísar hann til þess þegar heitt vatn fannst að Laugalandi í Eyjafjarðarsveit fyrir 1980 og fljótlega hafi komið í ljós mikill niðurdráttur í kerfinu sem olli erfiðleikum í rekstri hitaveitunnar. „Norðurorka hefur því alltaf lagt áherslu á að sinna rannsóknarhlutanum mjög vel,“ segir Hjalti Steinn.


Hjalti Steinn Gunnarsson, sviðsstjóri framkvæmdasviðs Norðurorku, og Hörður Hafliði Tryggvason, fagstjóri hita- og vatnsveitu Norðurorku, eru viðmælendur Akureyri.net í þessum greinaflokki um heitt og kalt vatn. 

Hörður heldur áfram með þetta atriði í tengslum við stöðuna á Hjalteyri og innstreymi sjávar í borholur þar. „Við höfum alltaf látið gera vinnslueftirlitsskýrslur og spár um það hvers við gætum vænst af svæðinu. Hjalteyri hefur frá upphafi lofað mjög góðu, við þurfum bara að trappa vinnsluna, eins og við höfum gert og höfum endurmetið það mjög reglulega,“ segir Hörður.

Styttri líftími en búist var við?

Þeir benda á að allt hafi, þar til fyrir tveimur árum, bent til þess að enn væru 10-15 góð ár eftir með borholurnar á Hjalteyri, en þá varð vart við innstreymi sjávar eins og sagt var frá í fyrsta hluta þessarar umfjöllunar.

„Við höfum alltaf unnið samkvæmt okkar bestu vitund og mati okkar helstu sérfræðinga í þessum málum um að við værum í góðum málum. Sem betur fer lánaðist okkur að kaupa jarðhitaréttindi á Ytri-Haga, sem er um átta kílómetra norðan við Hjalteyri,“ segir Hjalti Steinn.

Samningar varðandi réttindin á Ytri-Haga voru undirritaðir árið 2016 og hefur Norðurorka unnið skipulega að því að hefja vinnslu þar. „Það svæði átti að vera klárt eftir tíu ár, þegar Hjalteyri væri farin að nálgast þanmörkin, en eins og áður hefur komið fram gerðist það mun fyrr en áætlanir gerðu ráð fyrir. Núna erum við með allt í botni þar,“ segir Hjalti Steinn.

Skoða allar leiðir á Hjalteyri

Þeir segja breytingu sannarlega hafa ýtt við fólki. Hjalteyri myndi mögulega ekki endast eins lengi og áætlað var og því var nauðsynlegt að hraða enn frekar rannsóknum, undirbúningi og vinnu við önnur svæði. Auk þess er að sjálfsögðu settur kraftur í að rannsaka aðstæður á Hjalteyri og leita leiða til að verja holurnar.

Hjalti Steinn segir að unnið sé út frá ákveðinni tilgátu og vísar hann þar til þess að litlu borholurnar í kringum vinnsluholuna séu fóðraðar frekar grunnt, öfugt við vinnsluholuna sem er fóðruð mjög djúpt niður.

„Við erum í miklum rannsóknum þarna núna,“ segir Hörður. „Við höfum meðal annars dælt ferliefnum ofan í litlu holurnar. Efnin eru síðan greind í vinnsluholunum, þar sem stanslaust er verið að taka sýni. Við erum sem sagt að reyna að átta okkur á rennslisleiðunum á svæðinu.“

Við borun eftir heitu vatni ber auðvitað að hafa í huga að þar er verið að fást við síbreytilega náttúru og segja þeir Hjalti Steinn og Hörður hvert og eitt svæði einstakt. Þegar unnið sé með svona svæði geti tekið langan tíma að læra á svæðið.