Fara í efni
Umhverfismál

Plokkað af krafti á Plokkdeginum

Fólk plokkaði af krafti víða um bæinn í gær, þessi hópur var að störfum við Drottningarbrautina. Myndir: Þorgeir Baldursson

Stóri plokkdagurinn var haldinn í gær og sást víða til fólks á ferð með þar til gerðar græjur og poka að tína upp alls kona rusl. Rótarýhreyfingin á Íslandi hefur tekið að sér að skipuleggja daginn og félagar í Rótarýklúbbi Akureyrar voru á meðal fjölmargra sem plokkuðu, hópur Kiwanis-manna var einnig á ferðinni og fjöldi annarra.

Þorgeir Baldursson var á ferð með myndavélina og fangaði stemninguna í plokkinu í gær, á Leirunum við Drottningarbraut, við Baldursnes í Glerárhverfi og í Krossanesborgum.

Þessi dagur er haldinn árlega á þessum tíma og fólk hvatt til að hreinsa (plokka) í nærumhverfi sínu og öruggt að ýmislegt kemur í ljós þegr snjóa leysir. „Plokk er frábær útivera og gefandi verkefni sem eflir núvitund og gerir umhverfinu gott. Plokkið kostar ekkert og kallar ekki á búnað eða tæki nema þá helst ruslapoka og hanska,“ segir meðal annars á vef Akureyrarbæjar um verkefnið. 

Þó svo Plokkdagurinn sé haldinn sérstaklega er ekkert sem bannar okkur að gera þetta allan ársins hring þegar aðstæður leyfa. Til er Facebook-hópurinn Plokk á Akureyri, sem er sniðugur vettvangur til að hafa samband við aðra plokkara, merkja sér svæði til að hreinsa og láta vita hvernig gengur í máli og myndum.

Á vef Akureyrarbæjar er einnig bent á í þessu sambandi að í ábendingagátt á Akureyri.is og í Akureyrarappinu sé tilvalið að benda sveitarfélaginu á svæði sem þarf að hreinsa sérstaklega eða koma með ábendingar um annað það sem betur má fara.