Fara í efni
Umhverfismál

Nóvember til neyslu eða nýtingar?

Nýtni eða neysla í nóvember? Samsett mynd.

HUGLEIÐING

Evrópska nýtnivikan er hafin, en hún stendur fram til sunnudagsins 26. nóvember. Tímasetning nýtnivikunnar er ekki tilviljunakennd, en þessi vika er einmitt líka kennd við Þakkargjörðarhátíðina í Bandaríkjunum. Þakkargjörðarhátíð hljómar ekki eins og eitthvað neyslufyllerí, en staðreyndin er sú að svokallaður Svartur föstudagur’ eða ‘Black friday’ lendir einmitt á föstudeginum eftir hátíðina, sem er alltaf á fimmtudegi. Hefð er orðin fyrir því í Bandaríkjunum að búðir opni jafnvel á miðnætti, aðfararnótt föstudags og bjóði upp á svakalega afslætti. Svo brjálæðislega góða afslætti að það er næstum því syndsamlegt að sleppa því að nýta þá.

Fordæmalaus græðgi

Græðgin er slík vestanhafs, að til er sérstök heimasíða sem heldur utan um dauðsföll og meiðsl sem hafa orðið á fólki við troðning eða berserksgang með vopn í og við verslanir. Hingað til hafa sautján manns látist og hundraðtuttuguogfimm slasast við það að reyna að næla sér í afsláttarvörur á svörtum föstudegi. Skemmst er frá því að segja að eins og svo margt annað amerískt, hefur svarti föstudagurinn náð góðri fótfestu á Íslandi, án þess þó að draga fólk til dauða – enn sem komið er.

Þannig er nóvembermánuður orðinn undirlagður af merkisdögum í þágu markaðsaflanna.

Svarti föstudagurinn teygir úr sér

Svarti föstudagurinn hefur svo teygt úr sér fram yfir helgina, þar sem mánudagurinn hefur fengið nafnið ‘Cyber monday’ eða ‘Stafrænn mánudagur’ upp á íslensku. Svo má einnig nefna að hinn svokallaði ‘Singles day’ eða ‘Dagur einhleypra’ er alltaf 11.11 og er hann einnig nýttur til þess að selja allskonar vörur á afslætti. Þannig er nóvembermánuður orðinn undirlagður af merkisdögum í þágu markaðsaflanna og skal ekki undra að hinum ýmsu samtökum sem reyna að sporna gegn ofneyslu hafi dottið í hug að reyna að markaðssetja frasann ‘Nægjusamur nóvember’ og halda upp á hina Evrópsku nýtniviku.

Sérstakt þema Evrópsku Nýtnivikunnar 2023 er 'Umbúðir'

Saga Nýtnivikunnar

Nýtnivikan var stofnsett árið 2009 af ýmsum sjálfbærni- og umhvefisvitundarsamtökum í Evrópu. Meðal annars frá Spáni, Ítalíu, Belgíu, Ungverjalandi og Frakklandi. Allar upplýsingar um Nýtnivikuna og alls konar fróðleikur sem tengist nýtingu, endurvinnslu og sjálfbærni er hægt að finna á heimasíðunni https://ewwr.eu/ . Ýmis góð ráð fyrir þau sem vilja temja sér góðar venjur á nýtnisviðinu má nálgast á þessari síðu.

Lykillinn er að hafa ‘nýtnigleraugun’ á nefinu; það er að segja, að horfa á neysluna með það fyrir hugsskotssjónum að bera ábyrgð á því sem liggur eftir.

Litlar breytingar sem skipta máli

Sem dæmi um litla hluti sem hægt er að gera má nefna: Nota alltaf fjölnota poka, afþakka fjölpóst, kaupa frekar stærri pakkningar en minni til þess að minnka umbúðafarganið, kaupa hreinlætisvörur sem bjóða upp á áfyllingu, drekka kranavatn frekar en að kaupa drykki í flöskum og dósum, safna lífrænum úrgangi, endurnýta eða laga ónýt föt og margt fleira. Lykillinn er að hafa ‘nýtnigleraugun’ á nefinu; það er að segja, að horfa á neysluna með það fyrir hugsskotssjónum að bera ábyrgð á því sem liggur eftir - og hvernig má minnka ruslið sem fellur til í hringiðu persónulegrar neyslu.

 

Amtið lætur ekki staðar numið þar, enda bæjarstoltið okkar þegar kemur að hugmyndaauðgi og umhverfisvænum viðburðum.

Smekkfull Nýtnivika á Akureyri

Fjölbreytt og áhugaverð dagskrá er á Nýtnivikunni hjá Akureyrarbæ. Til dæmis verður listræn gjafakortasmiðja á Amtsbókasafninu miðvikudaginn 22. nóv, en þá er fólk hvatt til þess að gefa ódýrar jólagjafir í formi gjafabréfa fyrir upplifun með gefanda, greiða eða góðverk. Jónborg, Jonna, listakona sér um þessa smiðju. Amtið lætur ekki staðar numið þar, enda bæjarstoltið okkar þegar kemur að hugmyndaauðgi og umhverfisvænum viðburðum. Þar verður líka nóg um að vera á fimmtudeginum 23. nóv, en Kristín Aðalsteinsdóttir ætlar að bjóða upp á ‘Diskósúpu’ úr allskonar grænmetisafgöngum og síðan verður ‘Reddingakaffi’ klukkan 19-22. Það hafa áður verið haldin Reddingakaffi, en þá er fólk hvatt til þess að koma með hluti sem þarf að laga og gerð verður heiðarleg tilraun til þess að laga hlutinn með góðu fólki. Saumavélar og smáverkfæri verða á staðnum. 

Í FabLab’inu í VMA er hálfgerð miðstöð sköpunar, þar sem alls konar möguleikar til þess að sjá hugmyndir sínar lifna við eru fyrir hendi.

Listasafnið og FabLab

Í FabLab’inu í VMA er hálfgerð miðstöð sköpunar, þar sem alls konar möguleikar til þess að sjá hugmyndir sínar lifna við eru fyrir hendi. Þar verður opið hús á fimmtudeginum á milli 13-18. Listasafnið tekur líka þátt í Nýtnivikunni og býður upp á listasmiðju á sunnudeginum 26. nóvember, þar sem áherslan er á að skoða alls kyns umbúðir og skoða hvernig má nýta þær á listrænan hátt.

 

Það sem kristallast í boðskap Nýtnivikunnar er ekki að troða inn samviskubiti hjá þeim sem versla eitthvað nýtt, heldur að vekja fólk til umhugsunar um hóf og þarfir.

Lykilorðið er ‘Hóf’

Vissulega er skynsamlegt að nýta sér tilboð á Svörtum föstudegi á hlutum sem vantar eða væru hentugir til jólagjafa. Það sem kristallast í boðskap Nýtnivikunnar er ekki að troða inn samviskubiti hjá þeim sem versla eitthvað nýtt, heldur að vekja fólk til umhugsunar um hóf og þarfir. Til dæmis má setja spurningarmerki við ýmislegt tengt jólagjöfum. Til eru ýmsar leiðir til þess að minnka umsvif pakkaflóðsins, sem dæmi hafa sumar fjölskyldur tekið upp á því að draga nafn úr hatti og hver fjölskyldumeðlimur gefur bara eina gjöf. Þá fá allir eina veglega og fallega gjöf í staðinn fyrir margar sem eru misvel úthugsaðar. Kannski væri góð hugmynd að kíkja á gjafakortasmiðjuna á Amtinu, þó ekki nema til þess að fá góðar hugmyndir. Leyfum okkur að hugsa hlutina upp á nýtt og hafa þá raunverulegan metnað fyrir framtíð umhverfisins með í för.

Rakel Hinriksdóttir er blaðamaður á Akureyri.net og formaður SUNN; Samtaka um náttúruvernd á Norðurlandi.