Fara í efni
Umhverfismál

Mjólk og ávextir ekki hluti af fríum máltíðum

Samsett mynd - unsplash.com

Ávaxta- og mjólkuráskrift í grunnskólum Akureyrarbæjar verða ekki hluti af fríum skólamáltíðum, samkvæmt ákvörðun bæjarráðs frá því í morgun um lækkanir á gjaldskrám. Spurt var fyrir nokkrum dögum hvort fríar skólamáltíðir tækju aðeins til hádegisverðar eða allra máltíða í skólanum og þá meðal annars vísað til ávaxta- og mjólkuráskrifta. Svarið liggur fyrir.

Annaráskrift fyrir máltíðir lækkar um 100% – verður sem sagt ókeypis – en ávaxta- og mjólkuráskriftir lækkar um 5%.  Ávaxtaáskrift mun kosta 2.089 krónur og mjólkuráskriftin 923 krónur á mánuði frá 1. september. Hvort tveggja hækkaði um 9% frá áramótum og mun lækka um 5% frá 1. september. Sama á við um frístund í skólanum, skólamáltíðir í lengri viðveru og síðdegishressing lækka um 5% samkvæmt þessari ákvörðun og eru því ekki skilgreindar sem hluti af fríum skólamáltíðum. Lækkanir á hinum ýmsu liðum eru 1-5 prósent, í flestum tilvikum fimm prósent. 

Grunnskólar bæjarins voru settir í dag og hefst kennsla á morgun samkvæmt stundaskrám.

Lækkanir taka gildi 1. september

Bæjarráð samþykkti í morgun breytingar á gjaldskrá Akureyrarbæjar með gildistíma frá og með 1. september. Bæjarráð fjallaði um gjaldskráamálið á fundi sínum fyrir viku að áeggjan bæjarfulltrúanna Hildu Jönu Gísladóttur (S) og Sunnu Hlínar Jóhannesdóttur (B), meðal annars eftir að þær birtu grein á Akureyri.net með áskorun til bæjaryfirvalda. 

Í afgreiðslu bæjarráðs í morgun segir meðal annars að bæjarstjórn hafi samþykkt þann 19. mars, í kjölfar áskorana um aðkomu hins opinbera að kjarasamningum, að endurskoða gjaldskrárhækkanir sem tóku gildi um síðastliðin áramót. Hér er vísað til gjaldskráa sem varða barnafjölskyldur og fólk í viðkvæmri stöðu. Á þeirri spýtu hékk einnig að tryggja gjaldfrjálsar skólamáltíðir fyrir nemendur í grunnskólum sveitarfélagsins. 
 
Fríar skólamáltíðir – aðeins hádegisverður
 
Breytingar í grunnskólunum eru sem hér segir:
 
  • Annaráskrift á mánuði
    2023: 10.388 kr.
    2024: 11.323 kr. - hækkaði um 9% frá áramótum
    2024: 0 - lækkar um 100% frá 1. september
  • Ávaxtaáskrift á mánuði:
    2023: 2.018 kr.
    2024: 2.199 kr. - hækkaði um 9% frá áramótum
    2024: 2.089 kr. - lækkar um 5% frá 1. september
  • Mjólkuráskrift á mánuði:
    2023: 892 kr.
    2024: 973 kr. - hækkaði um 9% frá áramótum
    2024: 923 kr. - lækkar um 5% frá 1. september

Lækkað um 5% í flestum tilvikum

Lækkanir sem koma til framkvæmda 1. september eru mismunandi eftir stöðum, en ákvörðun bæjarráðs tekur til eftirtalinna gjaldskráa, samanber einnig skjáskot af lista yfir gjaldskrárlækkanir hjá einstökum stofnunum hér neðst í fréttinni.

  • Sundlaugar Akureyrarbæjar
  • Félagsleg heimaþjónusta
  • Laut, athvarf fyrir geðfatlað fólk
  • Skammtíma þjónusta fyrir fatlað fólk
  • Leikskólar
  • Mötuneyti grunnskólanna
  • Frístund í grunnskólunum
  • Tónlistarskólinn á Akureyri