Margar áskoranir við breytta sorpflokkun
Sorptunnuskipti standa nú yfir á Akureyri. Önnur sveitarfélög við Eyjafjörð eru líka að innleiða fjórflokkun úrgangs en áskoranirnar eru margar við breytingarnar.
„Helsta áskorunin hefur verið sú að reyna að fá aðstoð við innleiðinguna frá til þess bærum aðilum. Við vonuðumst lengi til að sveitarfélögin á Eyjafjarðarsvæðinu myndu vinna þetta að einhverju leyti saman undir forystu SSNE eða Sambandsins, en svo hefur ekki verið,“ segir Helga Íris Ingólfsdóttir, deildarstjóri eigna- og framkvæmdadeildar hjá Dalvíkurbyggð aðspurð um áskorarnir við þessa breytingu hjá Dalvíkurbyggð.
Skylt að safna fjórum flokkum úrgangs
Akureyri.net hefur áður sagt frá því að stefnt sé að því að öll heimili á Akureyri verði komin með þrjár nýjar sorptunnur í haust. Ástæða breytinganna eru lög sem samþykkt voru á Alþingi árið 2021 um meðhöndlun úrgangs. Lögin tóku gildi 1. janúar 2023 og samkvæmt þeim er öllum sveitarfélögum skylt að safna fjórum flokkum úrgangs við heimili í þéttbýli.
Upplýsingaóreiða og lítið tillit til dreifbýlis
„Helsta áskorunin hjá okkur til þessa hefur verið að innleiða gjaldtöku á gámasvæðinu og að læsa því utan auglýsts opnunartíma en það hafði ekki verið gert fram að þessu,” segir sveitarstjóri Eyjafjarðarsveitar, Finnur Yngvi Kristinsson, ynntur eftir stærstu áskoruninni í hans sveitarfélagi við að uppfylla kröfur nýju laganna. Snorri Finnlaugsson, sveitarstjóri Hörgársveitar, telur stærstu áskorunina vera hversu löggjöfin miðist mikið við stærri þéttbýli en lítið tekið tillit til minni þéttbýlisstaða og dreifbýlis. Sveitarstjóri Grýtubakkahrepps, Þröstur Friðfinnsson, segir stærstu áskorunina vera upplýsingaóreiðuna. „Að finna út hvað þyrfti raunverulega að gera til að uppfylla nýjar kröfur, einnig að koma í veg fyrir stórfelldar kostnaðarhækkanir,“ segir Þröstur.
Fjórar tunnur, hver fyrir sinn sorpflokk, við heimili í Fjallabyggð. Mynd: Elín Björg Jónsdóttir.
Tækniörðugleikar og tunnuskýli
Í Fjallabyggð telur Ármann Viðar Sigurðsson, deildarstjóri tæknideildar, stærstu áskorunina vera fólgna í frágangi á ílátum. Margir íbúar þurfa að stækka sín tunnuskýli eftir að fjórða tunnan bættist við en hann segir að dæmi séu um að nýja ílátið hafi týnst þegar það er vindasamt. Hjá Svalbarðsstrandarhreppi fengust þau svör að stærsta áskorunin hingað til tengdist því að sundurliða alla kostnaðarliði niður á álagningarseðla og búa í kjölfarið til nýja gjaldliði, en tæknilegir örðugleikar urðu til þess að álagningu fasteignagjalda seinkaði töluvert.
- Akureyri.net fjallar nánar um breytta sorpflokkun hjá sveitarfélögum við Eyjafjörð á morgun.