Fara í efni
Umhverfismál

Líforkugarðar að komast á rekspöl

Skýringarmynd Vistorku sem sýnir í stórum dráttum hvað felst í líforkuveri.

Líforkugarðar hafa verið nefndir í tengslum við fréttir af flutningi á metani frá Reykjavík til Akureyrar, vegna minnkandi framleiðslu metans úr sorphaugunum á Glerárdal, með tilheyrandi kostnaði sem leitar út í verðlagið.

Áform um byggingu líforkugarða á Dysnesi eru komin nokkuð á veg, sótt hefur verið um lóð eins og Akureyri.net greindi frá í október og skrifað undir viljayfirlýsingu um staðsetningu, kynning hefur farið fram meðal íbúa Hörgársveitar og bjartsýni og jákvæðni virðist ríkja um áframhald verkefnisins. Næsta skref er að halda aðalfund og skipa formlega stjórn til að leiða verkefnið áfram í gegnum uppbyggingar- og fjármögnunarferli þess.

Aðalfundur í desember og formleg stjórn skipuð

Stjórn Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi eystra hefur samþykkt að núna í desember verði haldinn aðalfundur í félaginu Líforkugarðar ehf. þar sem skipuð verði formleg stjórn þess. Bæjarráð Akureyrarbæjar hefur tilnefnt Heimi Örn Árnason, formann bæjarráðs, sem fulltrúa Akureyrarbæjar í stjórnina og Hildu Jönu Gísladóttur bæjarfulltrúa til vara.

Á fundi bæjarráðs í gær var lagt fram minnisblað frá Albertínu Friðbjörgu Elíasddóttur, framkvæmdastjóra SSNE, um stöðu og næstu skref vegna líforkugarða. Þar er farið í stuttu máli yfir stöðu verkefnisins:

  • Félagið Líforkugarðar ehf. hefur sótt um lóð á Dysnesi undir fyrsta fasa líforkugarðanna; líforkuverið (CAT1 vinnslu).
  • Viljayfirlýsing hefur verið undirrituð milli fulltrúa Líforkugarða og Hafnasamlags Norðurlands (landeiganda) um að uppbygging líforkuvers verði á landi Dysness.
  • Haldinn hefur verið kynningarfundur fyrir íbúa Hörgársveitar og sveitarstjórn Hörgársveitar er jákvæð fyrir því að vinnslan verði staðsett í sveitarfélaginu. Íbúafundurinn var vel sóttur og var um margt jákvæður fyrir uppbyggingu líforkuvers á Dysnesi.
  • Staðfest að vinnslan sem búið er að teikna upp hentar fyrirliggjandi skipulagi vel. Matsskyldufyrirspurn til Skipulagsstofnunar er í vinnslu.
  • Verkefnið unnið í þéttu samtali við fulltrúa Matvælaráðuneytisins og með stuðningi Umhverfisorku og loftslagsráðuneytisins.
  • Eimur sótti 15 milljónir til Loftslagssjóðs fyrir undirbúning lífgasvinnslu í Líforkugörðum, og umhverfis- orku og loftslagsráðuneytið hefur þar að auki styrkt verkefni SSNE, Orkubændur, um tíu milljónir. Þessi tvö verkefni verða unnin samhliða, en alfarið til hliðar við líforkuversverkefnið, óháð fyrsta fasa verkefnisins.

Í minnisblaðinu eru eftirtalin atriði sett fram sem tillaga um næstu skref:

  • Lagt er til að haldinn verði aðalfundur í félaginu Líforkugarðar ehf. í byrjun desember þar sem skipuð verði formleg stjórn félagsins.
  • Hlutverk stjórnar yrði að leiða verkefnið áfram í gegnum uppbyggingar- og fjármögnunarferli þess.
  • Stjórn skal ráða starfsmann til verkefnisins og ráðgjafa eins og hún metur þörf á.
  • Jafnframt skal stjórn leggja fram tillögu að fjármögnun næstu skrefa í verkefninu og áætlun um framhaldið í upphafi árs 2024.
  • Lagt er til að stjórnin verði skipuð fimm fulltrúum: Formaður stjórnar komi frá umhverfis-, orku-, og loftslagsráðuneytinu, einn fulltrúi frá Akureyrarbæ, einn frá Hörgarsveit, einn frá stjórn SSNE og einn fulltrúi tengdur afurðastöðvunum.