Gífurlegt svifryk í dag, götur sópaðar
Svifryk er í hæstu hæðum á Akureyri í dag. Í hádeginu mældist það 326,0 míkgrógrömm á rúmmetra sem er tvöfalt það magn sem mældist klukkan eitt á nýarsnótt, þegar mengun var mikil. Þegar svifryk fer yfir 100,0 míkgrógrömm telst það óhollt.
Mælir Umhverfisstofnunar norðan við Hof sýndi 74,0 míkrógrömm á rúmmetra klukkan níu í morgun. Þá telst loftið sæmilegt, en þegar mæling sýnir 75,0 til 100,0 telst það óhollt fyrir viðkvæma. Allt yfir 100,0 telst óhollt.
Frá klukkan 10.00 til 16.00 eru tölurnar rauðar eins og sjá má hér að neðan.
Svifryk er fínasta gerð rykagna sem eiga greiða leið í öndunarfærin en heilsuverndarmörk á sólarhring miðast við 50 míkrógrömm á rúmmetra, að því er fram kemur á vef Umhverfisstofnunar.
Á vef Umhverfisstofnunar segir um loftgæði og litamerkingarnar:
Mjög gott loft – upp að 25 míkgrógrömmum á rúmmetra.
Gott loft – 25 til 50 míkrógrömm
Sæmilegt loft – 50 til 75
Óhollt loft fyrir viðkvæma – 75 til 100
Óhollt loft. Yfir 100 míkrógrömm á rúmmetra. Um það segir á vef stofnunarinnar: „Mikil loftmengun. Einstaklingar með alvarlega hjarta- og/eða lungnasjúkdóma ættu að forðast að vera úti þar sem hætta er á mikilli mengun. Forðast ætti að vinna erfiðisvinnu eða að stunda líkamsrækt utandyra þar sem loftmengun er mikil.“