Fara í efni
Umhverfismál

Fundu fágæta bók eftir James Norman Hall

Rykfallna bókin sem fannst í MA á dögunum, fjórða bók James Normans Hall,
Menntaskólinn á Akureyri birtir skemmtilegan og áhugaverðan pistil á Facebook-síðu sinni í gær. Þar er fjallað um heimsfrægan bandarískan rithöfund, James Norman Hall að nafni (1887-1951), sem dvaldist á Akureyri um nokkurra mánaða skeið á árunum 1922-23. Ekki alls fyrir löngu fannst rykfallin bók eftir þennan höfund sem var orðinn þekktur í heimalandinu og víðar þegar hann heimsótti Akureyri. Ljóst er að hér er fágætt og merkilegt eintak á ferðinni sem legið hefur í leyni áratugum saman í einni af geymslum Menntaskólans á Akureyri,“ segir meðal annars í pistlinum.
 
Pistillinn á Facebook-síðu MA er svohljóðandi:
 
Heimsfrægur amerískur rithöfundur, James Norman Hall að nafni (1887-1951) dvaldist á Akureyri um nokkurra mánaða skeið á árunum 1922-23. Þann tíma bjó hann á Hótel Oddeyri. Hall var orðinn þekktur höfundur í heimalandinu og raunar víðar þegar að Íslandsheimsókninni kom. Tíu árum eftir dvölina á Akureyri skrifaði hann bókina Mutiny on the Bounty með Charles Nordhoff. Uppreisnin á Bounty skipaði Hall og Nordhoff sess meðal þekktustu rithöfunda 20. aldarinnar en bókin er af mörgum talin í hópi klassískra verka bókmenntasögunnar.
 
 
Hall kynntist áhugaverðu fólki á ferðum sínum norðan heiða. Meðal þeirra var Vernharður Þorsteinsson (1884-1959) kennari við Gagnfræðaskólann og síðar Menntaskólann á Akureyri. Hall sótti íslenskutíma til Vernharðs og þó hvergi komi fram hvar íslenskunám Hall fór fram má teljast líklegt að þeir hafi mælt sér mót í Gamla skóla þar sem Vernharður starfaði. Hann hafði áður stundað bæði nám og vinnu í Danmörku, Sviss, Þýskalandi og Noregi áður en hann flutti til Akureyrar árið 1921. Vernharður var ókvæntur og barnlaus.
 
 
Eftir útgáfu bókarinnar um uppreisnina í Suðurhöfum hefur nafn James Norman Hall skotið reglulega upp kollinum í draumaverksmiðjunni Hollywood. Hið minnsta þrjár bíómyndir hafa verið gerðar eftir sögu hans um átök Fletcher Christian og William Bligh skipstjóra á Bounty árið 1789. Sú frá árinu 1984 skartar Mel Gibson og Anthony Hopkins í aðalhlutverkum, Marlon Brando og Richard Harris léku aðalhlutverkin árið 1962 og Clark Gable og Charles Laughton í upprunalegu útgáfunni árið 1935. Fleiri bíómyndir hafa verið gerðar eftir bókum Hall svo sem Passage to Marseille árið 1944 með Humphrey Bogart í aðalhlutverki og Botany Bay frá 1953 með leikaranum Alan Ladd. Nancy og Conrad, börn James Norman Hall gerðu það einnig gott í Hollywood eftir daga hans, sérstaklega þó Conrad. Hann hlaut þrenn Óskarsverðlaun á ferlinum sem kvikmyndatökumaður fyrir myndirnar Butch Cassidy and the  Sundance Kid árið 1969, American Beauty árið 1999 og Road to Perdition árið 2002.
 
Ekki alls fyrir löngu fannst rykfallin bók í MA, skrifuð af Hall og Nordhoff og gefin út af Harper & Brothers í Bandaríkjunum árið 1921, ári áður en Hall kom til Akureyrar. Bókin er sú fjórða í röðinni sem Hall skrifaði og heitir Faery Lands of the South Seas. Undirritaður varð heldur betur hissa þegar hann opnaði bókina og sá að hún er árituð af sjálfum James Norman Hall. Ekki nóg með það, heldur er áritunin persónuleg kveðja til Vernharðs og virðist sem bókin hafi verið persónulegur áramótaglaðningur frá Hall til Vernharðs, gjöf frá nemanda til kennara síns. Fremst í bókina skrifar James Norman Hall með svörtum blekpenna:
 
To Mr. Thorsteinsson
With the best wishes for a Happy new year
James N. Hall
Akureyri, December 31, 1922.
 
Í þýðingu pistilhöfundar:
Til Hr. Þorsteinssonar
Með bestu óskum um gleðilegt nýtt ár
James N. Hall
Akureyri, 31. desember 1922.