Fara í efni
Umhverfismál

Feðmingur Lilýjar Erlu Adamsdóttur

SÖFNIN OKKAR – L

Frá Listasafninu á Akureyri_ _ _

Akureyri.net heldur áfram að opna dyr safnanna í bænum lesendum til fróðleiks og skemmtunar. Það er gert vikulega, á fimmtudögum.

Lilý Erla Adamsdóttir
Feðmingur
2022
Textíll

Lilý Erla Adamsdóttir lauk BA gráðu í myndlist frá Listaháskóla Íslands 2011 og mastersnámi í listrænum textíl frá Textilhögskolan í Borås í Svíþjóð 2017. Hún vinnur á mörkum myndlistar, hönnunar og listhandverks. Yfirborð er henni hugleikið, hvort sem um ræðir yfirborð náttúrunnar eða mennskunnar. Í verkum sínum skoðar hún handgerða endurtekningu, möguleika hennar og takmarkanir. Vinnuferli Lilýar einkennist af stöðugu samtali við efnið, þar sem eitt leiðir af öðru. Þegar kemur að samspili lita og efniseiginleika nýtir hún eiginleika tufttækninnar til skoðunar á þræðinum og sjónrænna áhrifa hans.

Sýning á verkum Lilýar var sett upp í Listasafninu á Akureyri í ágúst 2020 undir heitinu Skrúðgarður og síðar festi Listasafnið kaup á því verki sem hér er til umfjöllunar. Á sýningunni byggði hún litavalið á ferðum sínum í Lystigarðinn og þeim áhrifum sem trén, blómin og jurtirnar hafa haft á hana gegnum árin. „Lystigarðurinn á sér fallegan stað í hjarta mínu,“ segir Lilý. „Í æsku varði ég þar miklum tíma og verkin eru að einhverju leyti endurkast af marglaga upplifun minni á honum og hugmyndinni um skrúðgarða almennt. Það sem mér finnst áhugavert við skrúðgarða er að þeir eru afmarkaður reitur fyrir ákveðinn vöxt, en þeim vexti er stýrt eftir kúnstarinnar reglum. Þetta á líka við um mína sköpun. Það er eitthvað sem vex fram í hvert sinn sem verk verður til og maður er alltaf á einhvern hátt að reyna að stýra þessu lífræna flæði.“