Fara í efni
Umhverfismál

Endurvinnslutunnur ekki tæmdar í sumar

Er Endurvinnslutunnan full? Þjónusta við Endurvinnslutunnurnar hefur verið skert í sumar enda verið að leggja þjónustuna niður í takt við nýtt flokkunarkerfi í bænum. Tunnurnar verða sóttar til viðskiptavina á næstunni.

Endurvinnslutunnur sem staðið hafa Akureyringum til boða hjá Terra verða aflagðar í sumar vegna tilkomu nýs flokkunarkerfis hjá bænum. Síðustu greiðsluseðlar voru sendir út til viðskiptavina í maí og síðan þá hafa tunnurnar fengið minni þjónustu.

Endurvinnslutunnan leggst af

Útskipti á ruslatunnum á Akureyri er hafin í takt við breytingar á flokkun og söfnun úrgangs. Núverandi tunnum verður skipt út og fjórum flokkum úrgangs safnað við hvert heimili í þar til gerðar tunnur. Sjá nánar hér:

https://www.akureyri.is/is/thjonusta/umhverfismal/sorphirda/flokkum-fleira-heima

Margir Akureyringar hafa nú þegar endurvinnslutunnu frá Terra, en í hana er hægt að setja pappír, fernur, pappa, málma og plast. Þessar tunnur leggjast nú af, enda ekki lengur leyfilegt að blanda endurvinnsluflokkum saman. Að sögn Helga Pálssonar, rekstarstjóra Terra á Norðurlandi, ætlaði Terra sér að sinna endurvinnslutunnunum þar til innleiðing á nýja tunnukerfinu væri lokið. Hins vegar hefur komið í ljós að vegna tunnuskiptanna næst ekki að sinna tæmingu á endurvinnslutunnunum eins vel og áður og því var ákveðið að hætta með þjónustuna strax í sumar. „Við erum að láta okkar viðskiptavini vita og munum pikka endurvinnslutunnurnar upp á næstunni,“ segir Helgi. Á þetta eingöngu við um heimili, ekki fyrirtæki. Eins mun Terra áfram reyna að sinna endurvinnslutunnum í stærri fjölbýlishúsum á meðan verið er að koma nýja kerfinu á.

Mörgum hefur þótt þægilegt að vera með Endurvinnslutunnuna við heimili sín en í hana hefur mátt setja pappír, plast og málma. Samkvæmt nýjum flokkunarreglum má ekki blanda endurvinnsluflokkum saman.

Ekki rukkað fyrir tunnuna í sumar

Þeir íbúar sem eru með endurvinnslutunnu við sérbýli geta því átt von á því að tunnan verði ekki tæmd í sumar enda viðskiptavinir ekki lengur rukkaðir fyrir þjónustuna. Þeir sem ekki hafa fengið nýjar ruslatunnur við heimili sín þurfa því að fara tímabundið með endurvinnsluefni á grenndarstöðvar en gert er ráð fyrir því að nýja flokkunarkerfi bæjarins verði komið við hvert heimili á Akureyri fyrr en í lok september.