Fara í efni
Umhverfismál

Ferðalok það besta sem Arnaldur hefur gefið út

AF BÓKUM – 1

Starfsfólk Amtsbókasafnsins á Akureyri hefur orðið við þeirri beiðni Akureyri.net að segja lesendum vikulega frá bók, jafnvel fleiri en einni hverju sinni. Uppátækið vekur hugsanlega athygli á bókakosti safnsins, þar sem af nógu er að taka, og glæðir vonandi áhuga sem flestra á bóklestri.

Hólmkell Hreinsson amtsbókavörður ríður hér á vaðið:_ _ _

Mér finnst við hæfi að hefja þessi bókameðmæli bókavarða fyrir akureyri.net með því að mæla með bókinni Ferðalok eftir Arnald Indriðason.

Arnaldur hefur í áratugi verið einn vinsælasti höfundur Íslands og fyrst og fremst er hann þekktur fyrir sakamálasögur sínar um lögreglumennina Erlend og Konráð. En hann hefur þó gert nokkrar tilraunir með öðruvísi bókmenntaform, s.s spennusagan um Napóleonsskjölin og sögulega skáldsagan Sigurverkið. Ég hef í mörg ár verið mjög hrifinn af því sem Arnaldur skrifar, fyrst og fremst vegna þess hvað hann er stílhagur höfundur og hversu gott er að lesa textann sem hann skrifar. Viðfangsefnin hafa verið misáhugaverð en best hefur mér alltaf þótt honum takast til þegar hann skrifar um liðna tíð.

Sigurverkið fannst mér frábær saga og núna eru Ferðalok komin sem mér finnst vera það besta sem Arnaldur hefur gefið út. Hér er hann í sínu besta formi; að segja frá liðinni tíð og ekki spillir að aðalsöguhetjan er ástmögur þjóðarinnar: Jónas Hallgrímsson.

Sögusviðið er líka vel kunnugt. Öxnadalur og Hörgárdalur og svo okkar kæra Kaupmannahöfn, þó svo að þar sé nú ekki víða farið í þessari sögu. Sagan gerist á síðustu dögum Jónasar, eftir fótbrotið fræga sem öll börn lærðu um í skólum á minni tíð. Þó þeir séu ekki margir, né viðburðaríkir fáum við að kynnast skáldinu, ástum þess, draumum og þrám. Ljóðunum, náttúrufræðinni, orðasmíðinni og ýmsum samferðamönnum. Eins og Hörgáin rennur svo í gegnum söguna frásögnin af örlögum smalans Kela sem er á svipuðu reki og Jónas og úr sömu sveit. Sennilega þarf ég að lesa bókina aftur því mig grunar að hinn greiði stíll Arnaldar geri það að verkum að ég hafi misst af mörgum vísunum í líf og starf skáldsins. Hún þolir það vel að ég tel að vera lesin aftur.