Fara í efni
Tónlistarbærinn Akureyri

X-bandið var fyrsta danshljómsveitin

X-bandið skömmu eftir að það var stofnað. Frá vinstri: Þorvaldur Hallgrímsson, Tómas Steingrímsson, Jakob Möller, Jón Norðfjörð og Arngrímur Árnason.

TÓNDÆMI – 5

Tónlist hefur verið í hávegum höfð á Akureyri allt frá síðari hluta 19. aldar og stendur í miklum blóma nú sem endranær. Akureyri.net mun næstu misseri rifja upp eitt og annað úr tónlistarsögu bæjarins í vikulegum pistlum. Þeir birtast alla miðvikudaga._ _ _

Fyrsta danshljómsveit Akureyrar var stofnuð árið 1928. Hljómsveitina stofnuðu ungir og bjartsýnir menn og kölluðu sig X-bandið; þetta voru Þorvaldur Hallgrímsson, píanóleikari, Tómas Steingrímsson, sem lék á klarinett, Jón Norðfjörð sem spilaði á banjó og flautu, Arngrímur Árnason trommari og Jakob Einarsson, sem lék á fiðlu.

Til gamans má geta þess að fyrr þetta sama ár stofnaði Tómas klarinettuleikari, síðar kunnur heildsali í bænum, Knattspyrnufélag Akureyrar ásamt fleirum og varð fyrsti formaður þess. Tómas fagnaði 19 ára afmæli sínu í nóvember.

Þorvaldur Hallgrímsson sagði frá þessari fyrstu danshljómsveit Akureyrar í samtali við blaðið Dag haustið 1980, en þá lék gamli maðurinn gjarnan dinnermúsík fyrir gesti veitingastaðarins Smiðjunnar í miðbæ Akureyrar.

„Þegar við höfðum ákveðið að stofna hljómsveit var að sjálfsögðu farið að reyna að útvega hljóðfæri. Við fengum trommuna hjá lúðrasveitinni og bjuggum til hljóðfæri eftir þörfum. Einhver okkar hafði séð um borð í dönsku varðskipunum kústskaft með áfastri dós á miðju skaftinu. Á þetta var strengdur vír og nokkur dósalok voru ofan á skaftinu. Þegar skaftinu var barið niður glömruðu lokin og þegar spýtu var slegið á strenginn söng í dósinni.“

Áskrifendur að útsetningum

Danshljómsveit á þessum árum varð að geta boðið upp á vinsælustu slagarana, ekki síður en krafist var síðar meir. „Þeir félagar komust í  kynni við „forlag“ í Kaupmannahöfn, sem ekki aðeins seldi þeim hljóðfæri, heldur líka útsetningar að vinsælustu slögurunum á hverjum tíma. Piltarnir gerðust áskrifendur að útsetningunum og því fengu Akureyringar alltaf það nýjasta nýtt af dansmússik beint utan úr heimi. Þá var ekki útvarp eða sjónvarp til að spila fyrir fólk og því gerðar miklar kröfur til hljómsveita á dansleikjum,“ skrifar blaðamaður Dags eftir frásögn Þorvaldar.

Þegar dansgestir þreyttust á dansinum í Gúttó gátu þeir farið í litla salinn og keypt sér límonaði og kaffi, segir Þorvaldur. „Á stórhátíðum var  hægt að kaupa sér meðlæti, en áfengi fékkst ekki. Hitt er svo aftur annað mál að aldrei var hægt að gera Bakkus útlægan með öllu. Þorvaldur minnist þess að ungir menn fóru gjarnan út um bakdyr með pela og staupuðu sig hraustlega fyrir utan. Þegar kalt var í veðri fór stundum illa
fyrir sumum þegar þeir komu aftur inn í hitann,“ segir blaðamaðurinn og hefur jafnframt eftir Þorvaldi: „Já, mórallinn var góður á þessum dansleikjum. Fólk kom alltaf ákaflega vel klætt og var snyrtilegt.“

„Oft handagangur í öskjunni“

Þorvaldur lýsti fyrir blaðamanni balli frá tíma X-bandsins: „Í Gúttó [sem nú er betur þekkt sem Samkomuhúsið] voru svalir, með tvöfaldri bekkjaröð, við austur- vestur og norðurvegg. Þegar fólkið kom inn streymdi það æfinlega beint upp á svalirnar. Við spiluðum og spiluðum,
en enginn kom niður til að dansa. Þegar við höfðum t.d. spilað í hálftíma var kallað upp og sagt að hljómsveitin ætlaði að spila tvö lög til viðbótar, og ef fólk væri ekki farið að dansa þegar þau væru búin myndi hljómsveitin hætta. Það voru eiginlega alltaf sömu pörin sem komu niður. Ég man eftir Hjalta Antonssyni í þessum hópi, annar hét Svavar og hann dansaði við Selmu. Þriðji karlmaðurinn hét Sigurður  Þorsteinsson. Það voru miklar sviptingar þegar fyrstu pörin komu niður. Venjulega kom einn dansherrann og bað okkur um að spila góðan
tangó eða hægan vals. Pörin dönsuðu frá vegg til veggjar með tilheyrandi hnébeygjum, því plássið var nóg á gólfinu. Eftir fyrstu dansana fór fólk að týnast niður. Á bekkjum sem raðað var upp við vesturvegginn sátu herrarnir og við austurvegginn sátu dömurnar. Þegar byrjað var að spila þutu herrarnir af stað til að ná sér í dömu. Áður en dansleikurinn hófst var annaðhvort búið að bera talkúm eða tálga niður vax á gólfið svo það var hált, enda hlupu karlmennirnir bara hálfa leiðina, en renndu sér síðan fótskriðu til stúlknanna. Það var oft handagangur í öskjunni, því það kom fyrir að margir karlmenn væru um sömu stúlkuna.“

Árin sem X-bandið lék í upprunalegri mynd voru á margan hátt þroskandi fyrir meðlimina, segir Þorvaldur Hallgrímsson í viðtalinu við Dag 1980, en fljótt var höggvið skarð í hópinn. Arngrímur lést 1932 og Þorvaldur hætti að spila 1934.