Fara í efni
Tónlistarbærinn Akureyri

Ómenntaður en þekkti nótur nokkurn veginn

TÓNDÆMI – 6

Tónlist hefur verið í hávegum höfð á Akureyri allt frá síðari hluta 19. aldar og stendur í miklum blóma nú sem endranær. Akureyri.net mun næstu misseri rifja upp eitt og annað úr tónlistarsögu bæjarins í vikulegum pistlum. Þeir birtast alla miðvikudaga._ _ _

Magnús Einarsson frá Björgum í Þóroddsstaðasókn í Kaldakinn, var fyrsti organisti Akureyringa. Magnús organisti, eins og hann var jafnan kallaður,  var frumkvöðull að skipulagðri tónlistariðkun á Akureyri og stofnaði bæði fyrsta kór bæjarins og fyrsta lúðraflokkinn.

Saga Magnúsar er með miklum ólíkindum því hann var „ómenntaður alþýðumaður“ eins og Jón Þórarinsson tónskáld kemst að orði í formála bókar Aðalgeirs Kristjánssonar, Magnús organisti – baráttusaga alþýðumanns, sem kom út árið 2000.

„Eg ímynda mér að mér gangi ekki mjög illa að læra að spila, því eg er ekki alveg ófróður í söng, þekki nótur nokkurn veginn, og hefi hina mestu löngun til að komast niður í sönglist,“ skrifaði Magnús m.a. í bréfi til bæjarstjórnar Akureyrar  í apríl 1875.

  • Magnús organisti, fremstur á myndinni, með kór skólapilta í MA sem hann æfði veturinn 1912 til 1913. Aftasta röð frá vinstri: Bjarni Halldórsson, Hallgrímur Sigtryggsson, Jens Eyjólfsson, Arinbjörn Hjálmarsson, Trausti Ólafsson. Miðröð: Jón Kjerúlf, Helgi Pétursson, Frits Berntsen, Ingólfur Espólin, Jónas Jónasson, Steinn Þórðarson og Jón Einarsson. Neðsta röð: Pétur Magnússon, Sigurður Guðmundsson, Páll Magnússon, Sigþór Magnússon, Björn Jónsson og Ingimundur Árnason, sem átti eftir að stjórna karlakórnum Geysi í áratugi. 

 

Magnús Einarsson var fæddur 8. júlí 1848. Framan af ævi var hann í vinnumennsku hér og þar, auk þess að stunda sjóinn, en það var vorið 1874, þegar Magnús var 25 ára, að hann réðist sem vinnumaður að Stóra-Eyrarlandi, sunnan og ofan byggðarinnar á Akureyri. Varð það síðasti áfangi á vinnumannsferli hans.

Hafði aldrei komist í slíkt hrifningarástand

Skömmu eftir að Magnús kom að Stóra-Eyrarlandi kynntist hann æðri tónlist, sem svo er kölluð. Séra Friðrik J. Rafnar, sem jarðsöng Magnús 1934, sagði meðal annars í útfararræðunni:

„Eg minnist í því sambandi sögu, sem hann sagði mér sjálfur frá æskudögum sínum hér á Eyrarlandi. Hann hafði verið sendur ofan í bæinn einhverra erinda, og átti að vera fljótur. En þegar hann var á heimleið, að afloknu erindi, heyrði hann allt í einu undarlega, og ekki síður unaðslega hljóma, sem hann í fyrstu ekki skildi eða vissi hvað var. Hann settist, einhversstaðar í brekkunum, og gleymdi sér með öllu. Hann sagði mér sjálfur, að hann minntist ekki að hafa nokkurntíma á ævinni komist í slíkt  hrifningarástand. Þegar hann áttaði sig aftur var dagur liðinn að kveldi og hann fékk ómjúkar aðfinningar þegar heim kom fyrir hve lengi hann var. Það sem hann hafði heyrt var hornablástur frá ensku herskipi sem lá hér á höfninni. Þetta atvik varð til þess að vekja hann. Frá þeim degi vissi hann hvað hljómlist var, og frá þeim degi ákvað hann að ganga í þjónustu söngdísarinnar og þjóna henni alla ævi sína.“

Enginn kunni að leika á „söngvélina“

Gera má ráð fyrir því að vinnumaðurinn á Stóra-Eyrarlandi hafi verið meðal samkomugesta þegar þúsund ára afmæli Íslands byggðar var fagnað 1874.

Ekki er vitað hvort Magnús kynntist af eigin raun tónlistarkennslu danska verslunarmannsins, Bernhard August Steincke, síðasta veturinn sem hann var á Akureyri – fyrsta vetur Magnúsar þar. Steincke var forsöngvari í kirkjunni og við brottför hans úr bænum stóð sæti þess danska autt, um það leyti var í undirbúningi að fá orgel í kirkjuna en enginn í sjónmáli sem kunni að leika á slíkt hljóðfæri; slíka „söngvél“
eins og hljóðfærið var stundum nefnt í blöðum.

Svo fór að í starf organista var ráðinn „ómenntaður alþýðumaður sem hafði í rauninni ekki annað til brunns að bera en óbilandi áhuga og ást á söng og annarri tónlist. Jafnframt var honum gert kleift að verða sér úti um nokkra tilsögn í undirstöðuatriðum svo að hann gæti gegnt starfinu,“ segir Jón Þórarinsson í formála bókar Aðalgeirs Kristjánssonar sem áður var nefnd.

  • Fyrsta kirkjan á Akureyri sem vígð var í júní árið 1863 en rifin 1943. Minjasafnskirkjan stendur nú á þessum stað. Til hægri er Aðalstræti 58, Kirkjuhvoll, þar sem Minjasafnið á Akureyri er til húsa.

 

Ekki er ljóst hvort Magnús Einarsson tók það upp hjá sjálfum sér eða að annarra ráði að skrifa bæjarstjórn í apríl 1875 og gefa kost á sér til að „læra að spila á organ það eða Harmonium sem ákveðið er að útvega handa Akureyrarkirkju, og skal eg ef bæjarstjórnin gengur að þessu boði mínu ekki forsóma að leggja alúð við að ná þeirri fullkomnun í því, sem mér er framast unnt.“

Hann segir einnig í bréfinu: „Vegna vissra orsaka væri mér mikið kært að fá svar upp á þetta, svo fljótt sem hægt er,“ segir hann í bréfinu

Þrátt fyrir þetta fór bæjarstjórnin sér að engu óðslega. Vorið og sumarið liðu án þess að Magnús fengi svarmargir mánuðir liðu án þess að Magnús fengi svar.

Vorið og sumarið liðu án þess að Magnús fengi svar og sendi hann annað bréf um miðjan nóvember, minnti á umsókn sína og sagði síðan „Eg hefi ennþá ekkert svar fengið þessu viðvíkjandi, og hefur mér komið þessi óvissa mjög illa, þar eg hefi ekki þorað að ráða mig í vist eða skiprúm sem hafa boðist mér, fyrr en eg fengi afgjört svar uppá þetta bréf mitt.“

Nánar verður sagt frá Magnúsi organista síðar á þessum vettvangi enda af nógu að taka.