Fara í efni
Tónlistarbærinn Akureyri

Jóhanna líklega fyrsta barnastjarna Íslands

Barnastjarnan Jóhanna Jóhannsdóttir. Mynd: Hallgrímur Einarsson/Minjasafnið á Akureyri

TÓNDÆMI – 2

Tónlist hefur verið í hávegum höfð á Akureyri allt frá síðari hluta 19. aldar og stendur í miklum blóma nú sem endranær. Akureyri.net mun næstu misseri rifja upp eitt og annað úr tónlistarsögu bæjarins alla miðvikudaga.
_ _ _

Jóhanna Jóhannsdóttir var ein efnilegasta söngkona landsins á sinni tíð. Hún var fædd 1908 í Þingeyjarsýslu en tekin í fóstur af frænku sinni, Marselíu Kristjánsdóttur, þekktri athafnakonu á Akureyri, eftir að foreldrar Jóhönnu voru báðir látnir.

Jóhann Jóhannesson, faðir Jóhönnu, fékk lungnabólgu og dó áður en hún kom í heiminn og Guðrún Sveinsdóttir, móðir stúlkunnar, lést úr krabbameini þegar barnið var aðeins þriggja eða fjögurra ára. Sagan segir að Jóhanna hafi sungið svo fallega yfir móður sinni að strax í útförinni hafi Marselía ákveðið að taka þessa litlu, ljóshærðu frænku sína með slöngulokkana í fóstur. Fyrir lá að systkinahópnum yrði skipt og Marselía, sem var vel efnuð, hafi viljað taka Jóhönnu að sér og greiða götu hennar. 

Auglýsing fyrir tónleika Jóhönnu og Hreins Pálssonar óperusöngvara í Samkomuhúsinu á Akureyri árið 1932, þegar Jóhanna var 24 ára.

Guðmundur Skúli Johnsen, sonarsonur Jóhönnu, hefur heimildir fyrir því að frændi fjölskyldunnar, Björn Björnsson ráðherra í Kanada, hafi boðið Guðrúnu að koma utan fljótlega eftir að eiginmaður hennar lést en hin unga móðir svarað því til að hún treysti sér ekki með nýfætt barn í svo langa ferð. Þegar Jóa yrði eldri gæti hún hins vegar vel hugsað sér að koma, en Guðrúnu entist ekki aldur til þess.

Kom fram frá fimm ára aldri

Marselía Kristjánsdóttir var efnuð kona, rak hannyrðaverslun í Lækjargili og tók þátt ríkan þátt í félagslífi heldri kvenna á Akureyri. Saumaklúbbur hennar skipulagði margvíslar skemmtanir í því skyni að safna fé til góðgerðarmála og Jóhanna söng reglulega við slík tækifæri. „Þannig æxlaðist það að amma varð líklega fyrsta barnastjarna Íslendinga; söng á skemmtunum frá fimm ára aldri,“ sagði Guðmundur Skúli í samtali við höfund þessarar greinar. Hann er fæddur 1967 og kynntist því ömmu sinni vel, hún lést 1996. 

Jóhanna Jóhannsdóttir

Marselía var fædd að Sigríðarstöðum í Ljósavatnsskarði 1850, giftist ung Magnúsi Ólafssyni, óðalsbónda á Möðruvöllum í Eyjafirði og eignuðust þau þrjú börn. Ólafur lést 15 árum eftir að að þau giftust, Marselía bjó seinna með Sigfúsi Jónssyni kaupmanni á Akureyri og eftir lát hans bjó hún með Önnu dóttur sinni á Akureyri í mörg ár.

Þegar Jóhanna var á unglingsaldri fluttust þær þrjár til Kaupmannahafnar þar sem hún – fósturdóttirin og frænkan – hafði fengið inni í Konunglega konservatoríinu. Þar stundað hún nám í söng fyrir tilstuðlan Marselíu, og fékk einnig tilsögn í píanóleik. Þær dvöldu ytra í um það bil fjögur ár, og eftir heimkomuna hélt Jóhanna fjölda tónleika, bæði á Akureyri og annars staðar. Í Kaupmannahöfn höfðu þær keypt lítið píanó, píanettu, sem Jóhann ferðaðist með um landið; lék á hljóðfærið og söng. 

Báru sönginn uppi

Fljótlega fluttu allar þrjár saman til Reykjavíkur, þar sem Jóhanna var áberandi í nokkur ár á tónlistarsviðinu. Hún tók til dæmis þátt í fyrstu óperettu sem sýnd var á íslensku leiksviði, Meyjarskemmunni eftir austurríska tónskáldið Franz Schubert, snemma árs 1934, með Hljómsveit Reykjavíkur og fleiri söngvurum. Austurríkismaðurinn dr. Franz Mixa stjórnaði. „Um söng leikaranna í heild sinni er það að segja, að hann var sljettur og feldur og kunnu allir prýðilega vel hlutverk sín,“ sagði Páll Ísólfsson, sá mikli tónlistarfrömuður, í umsögn í Morgunblaðinu. Ennfremur sagði Páll: „Í fremstu röð ber að telja Kristján Kristjánsson, sem ljek og söng hlutverk Schuberts, og Jóhönnu Jóhannsdóttur, sem ljek hlutverk Hönnu, og frá sönglegu sjónarmiði leystu hlutverk sín best af hendi. Kom söngment þeirra skírt í ljós enda báru þau sönginn uppi.“

Jóhanna hvarf svo nokkuð skyndilega af sjónarsviðinu. Hún kynntist Baldri Garðari Johnsen, nýútskrifuðum lækni, þau giftust 1936 og þegar hann fékk stöðu héraðslæknis við Ísafjarðardjúp sá hún sæng sína upp reidda, aðeins tæplega þrítug. Eftir þetta söng hún ekki mikið opinberlega en kenndi hins vegar söng bæði á Ísafirði, síðar í Vestmannaeyjum þar sem Baldur var læknir, og í Reykjavík eftir að þau fluttu til höfuðborgarinnar á ný.