Fara í efni
Tónlistarbærinn Akureyri

Ingimar: „Ja, e, e, eftir svona tíu mínútur!“

Hljómsveit kennd við Ingimar Eydal í Sjallanum á ný, við upphaf níunda áratugarins. Frá vinstri: Snorri Guðvarðsson, Brynleifur Hallsson, Grímur Sigurðsson, Inga Eydal, Ingimar og Þorleifur Jóhannsson.

TÓNDÆMI – 4

Tónlist hefur verið í hávegum höfð á Akureyri allt frá síðari hluta 19. aldar og stendur í miklum blóma nú sem endranær. Akureyri.net rifjar upp eitt og annað úr tónlistarsögu bæjarins alla miðvikudaga.
_ _ _

Það var um áttaleytið á föstudagskvöldi að síminn hringdi hjá Snorra Guðvarðssyni, gítarleikara. Hinn eini sanni Ingimar Eydal var á hinum enda línunnar. Eftir að Ingimar fór aftur af stað með hljómsveit, eftir hlé vegna bílslyss, hafði hann imprað á því við Snorra annað slagið hvort hann vildi ekki koma og spila með sér en Snorri var með eigin hljómsveit, Jamaica, og vildi ekki svíkja félaga sína.

„Jamaica lognaðist útaf snemma á níunda áratugnum og þá hélt ég að ég væri einfaldlega hættur í þessum bransa. Var bæði að kenna og mála,“ segir Snorri. Símtalið frá Ingimar reyndist hins vegar örlagaríkt. Jamaica ekki lengur til og Snorri til í tuskið, reiknaði með að verða boðaður á æfingu í næstu viku og spurði hvenær hann ætti að mæta. Ingimar svarar: „Ja, e, e, eftir svona tíu mínútur!“ Það var sem sagt ball í Sjallanum og Brynleifur Hallsson hafði skaðast á hendi. Snorri bjó stutt frá, skipti um föt, greip gítarinn og magnara og segist hafa verið  byrjaður  að spila eftir um það bil hálftíma. „Þar með var ég orðinn meðlimur sveitarinnar!“ segir hann.