Fara í efni
Tónatröð

Gagnrýndu stjórnsýslu vegna Tónatraðar

Bæjarfulltrúarnir Sunna Hlín Jóhannesdóttir, Framsókn, og Hilda Jana Gísladóttir, Samfylkingu, gagnrýndu í umræðum á bæjarstjórnarfundi í gær stjórnsýslu meirihluta bæjarstjórnar vegna meðferðar máls er varðar skipulagsbreytingar við Tónatröð.

Málið snýst um áform og óskir SS Byggis um byggingu fjögurra fjölbýlishúsa vestan götunnar Tónatraðar, neðan við sjúkrahúsið.

Upphafleg hugmynd SS Byggis um uppbyggingu við Tónatröð sem Akureyri.net sagði frá í febrúar árið 2021.

Deiluefnið núna snýst meðal annars um það hvort og hvers vegna ætti að vísa málinu til umræðu í bæjarráði – sem meirihlutinn ákvað í gær. Bent er á að bæjarstjórn hafi samþykkt í febrúar 2023 að kynna tillögur að breyttu skipulagi, en það hafi svo aldrei verið gert. Þess í stað hafi viðræður við verktakann haldið áfram.

Meðal þess sem gagnrýnt hefur verið frá upphafi málsins er að jafnræðis hafi ekki verið gætt og reglur verið brotnar þegar verktakanum var heimilað að leggja fram tillögur um breytingar á skipulagi, auk þess sem hugmyndirnar séu í engu samræmi við nærliggjandi byggð.

Tillaga Yrki arkitekta fyrir SS Byggi sem kynnar voru í nóvember árið 2021.

  • Upphaflegar hugmyndir gengu út á að byggja fjölbýlishús á lóðum 2-14 og var þá hugmyndin að hús á lóð nr. 8 yrði fært úr stað. Húsið er ekki á myndinni hér að ofan.
  • Þar sem ekki lá fyrir samþykki Minjastofnunar um flutning hússins voru lögð fram að nýju drög að breytingu á deiliskipulagi fyrir lóðir 2, 4, 6, 10, 12 og 14 og miðað við að litlar sem engar breytingar yrðu á lóð nr. 8. Sjá myndina hér að neðan.


Ný og breytt drög Yrki arkitekta um deiliskipulag við Tónatröð sem lögð voru fram vorið 2022.

Óásættanleg óvissa

Sunna Hlín var málshefjandi í umræðum á bæjarstjórnarfundinum í gær. Hún rifjaði upp að fyrir 20 mánuðum hafi hún eftir mikla yfirlegu samþykkt að auglýstar yrðu breytingar á aðalskipulagi og deiliskipulagi á lóðunum við Tónatröð.

Hún kveðst hafa samþykkt það af tveimur ástæðum: „Ég vildi hefja samtal við íbúa á svæðinu og sömuleiðis fannst mér sanngjarnt að halda áfram að þróa svæðið með verktakanum sem hafði kostað miklu til. Ég var því tilbúin að sjá hvað gæti komið út úr þessu ferli. Nú rúmlega þremur árum eftir að þetta óheppilega mál hófst hefur lítið áunnist og auglýsing um breytt skipulag aldrei verið kynnt. Það er algjörlega óásættanlegt að bjóða verktakanum og íbúum á svæðinu upp á þessa óvissu lengur,“ sagði Sunna Hlín meðal annars á bæjarstjórnarfundinum.

Hreinlegast að taka verkefnið af starfsáætlun

Sunna Hlín minnti einnig á að hún hefði áður reynt að þoka málum áfram og bókað eftirfarandi í skipulagsráði þann 27. mars á þessu ári:

„Ef það eru ekki lengur áform um uppbyggingu fjölbýlishúsa í Tónatröð í þeirri mynd sem samþykkt var að auglýsa í febrúar 2023, en ekki verið gert, þá tel ég hreinlegast að taka það verkefni af starfsáætlun og bóka niðurstöðuna svo bæði verktaki og íbúar á svæðinu verði upplýstir um stöðu mála. Í framhaldinu verði sett á starfsáætlun að endurskoða skipulagið með uppbyggingu lítilla fjölbýlishúsa í huga.“

Hún benti á í gær að síðan hefði ekkert gerst í málinu og lagði því fram tillögu um að bæjarstjórn drægi ákvörðun um kynningu skipulagsbreytinganna til baka. Tillagan var felld með sex atkvæðum gegn fjórum.

Óvenju margir fylgdust með fundi bæjarstjórnar 7. febrúar 2023 þegar fjallað var um deiliskipulagstillögu vegna mögulegrar uppbyggingar við Tónatröð. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Samþykktu að kynna, en kynntu svo ekki

Bæjarstjórn samþykkti þann 7. febrúar 2023 að kynna drög að deiliskipulagi og drög að breytingu deiliskipulags við Spítalaveg, en sú kynning hefur aldrei farið fram.

Á sama fundi var felld tillaga Hildu Jönu um að fara með málið í íbúakosningu. Hilda Jana bókaði á þeim fundi að ef horfa ætti til breytinga á skipulagi Tónatraðar væri eðlilegra að svæðið væri skipulagt sem almennur þróunarreitur og auglýst eftir samstarfsaðila vegna vinnu við skipulag reitsins, þó með þeim skilyrðum að uppbygging falli vel að nærliggjandi byggð.

Við afgreiðsluna bókaði meirihluti bæjarstjórnar að nú yrði málið kynnt almenningi og öðrum hagsmunaaðilum með formlegum hætti í samræmi við ákvæði skipulagslaga og teldi meirihlutinn þá leið farsælli til íbúasamráðs en íbúakosningu á þeim tímapunkti.

Sunna Hlín lagði fram tillögu á fundinum í gær að bæjarstjórn drægi til baka ákvörðun sína frá 7. febrúar 2023. Tillagan var felld með sex atkvæðum meirihlutaflokkanna. Jón Hjaltason lýsti sig vanhæfan í málinu og vék af fundi þar sem hann og eigandi SS Byggis eru svilar.

Meirihlutinn vísaði til bæjarráðs

Í stað þess að draga fyrri ákvörðun bæjarstjórnar til baka í gær lagði meirihluti bæjarstjórnar fram tillögu um að vísa málinu til bæjarráðs og var hún samþykkt með atkvæðum sex bæjarfulltrúa meirihlutans.

Andri Teitsson (L) lagði fram tillöguna og upplýsti að meirihluti bæjarstjórnar hafi átt í viðræðum við SS Byggi um framhald málsins og á hvaða forsendum væri hægt að halda því áfram. Þar hafi meðal annars verið rætt um byggingarmagn og fyrirkomulag, hvernig fara ætti með hús sem fyrir eru á svæðinu sem hugmyndir voru um að flytja út fyrir svæðið, hver ætti að bera kostnað af því og hvað gera skyldi varðandi byggingaréttargjald.

Andri sagði viðræðurnar ekki hafa leitt til niðurstöðu og sagði það sitt mat, sem vekur óneitanlega athygli, að þær væru ekki nálægt því að leiða til niðurstöðu, jafnframt því að hann tók undir með Sunnu Hlín að tímabært sé að taka af skarið um framhald málsins. Sunna Hlín spurði hvort ekki þyrfti formlega ákvörðun um að fela einhverjum að fara í viðræður við verktaka.

Tillaga meirihlutans sem var samþykkt var svohljóðandi: „Í ljósi þess hversu langur tími er liðinn frá ákvörðun meirihluta bæjarstjórnar um að vinna að breytingu á deiliskipulagi við Tónatröð án árangurs felur bæjarstjórn bæjarráði að fara yfir fjárhagshliðina á verkefninu og taka ákvörðun um framhaldið.“

Feimni við að tjá sig um málið?

Í umræðum um málið á bæjarstjórnarfundinum í gær kvaðst Sunna Hlín orðin þreytt á því að alltaf sé verið að drepa málum á dreif og vísa eitthvert annað. Hún kvaðst ekki skilja þá röksemd að málið ætti heima í bæjarráði, það hafi ekki farið í gegnum bæjarráð á sínum tíma heldur beint inn í bæjarstjórn frá skipulagsráði.

„Við erum að taka réttinn af bæjarfulltrúum hér að hafa eitthvað að segja um þetta mál. En það er bæjarstjórnin sem tekur ákvörðun um þetta. Það sem við samþykktum 7. febrúar á sínum tíma [2023] var að fara í auglýsingu á skipulagi. Það hefur verið mikið gagnrýnt að athugasemdum íbúa hafi ekki verið svarað eftir að þeir sendu inn eftir lýsingu á skipulagsbreytingu. Mér fannst mjög mikilvægt að það stamtal myndi hefjast þannig að ég var ekki sammála þeirri leið að halda áfram samtali við verktakann án þess að ræða við íbúa,“ sagði Sunna Hlín meðal annars á fundinum í gær.

„Ég sé bara alls ekki af hverju það á að færa þetta mál inn í bæjarráð, ég veit ekki hvort fólk er svona feimið við að tjá sig um þetta mál hér,“ sagði Sunna Hlín einnig.

Mikið unnið á óformlegum fundum

Hilda Jana gagnrýndi í tengslum við umræðurnar um Tónatraðarmálið almennt vinnubrögð meirihlutans á kjörtímabilinu þar sem hún sagði skorta á góða stjórnsýslu.

„Mín upplifun á þessu kjörtímabili er að það sé ofboðslega mikið unnið á óformlegum fundum meirihlutans. Minnihlutinn lítið sem ekkert upplýstur um það sem er að gerast. Það sé í of mörgum tilfellum þar sem starfsfólk fylgi ákvörðunum frá meirihlutafundum eða fulltrúum frá meirihluta sem hafa ekki stjórnsýslulegt umboð til þess, að það hafi farið fundir fram sem kemur fram í máli bæjarfulltrúa Sunnu um þessi fjárhagslegu málefni, möglega samningaviðræður við verktaka, án þess að það fari nokkurn tíma fyrir nokkurn fund og sé komið jafnvel með nokkurra ára forsögu, eru að mínu mati ekki góð vinnubrögð. Ég hef skilning á því að það þurfi að ræða og undirbúa mál, en það hlýtur að vera eðlilegt að upplýsa um þær ákvarðanir sem á að taka, formfesta þær með eðlilegum hætti og upplýsa minnihlutann. Það er því miður þannig á þessu kjörtímabili að ítrekað heyri ég úti í bæ að Akureyrarbær sé að tala við hinn og þennan, eða lofa þessu eða hinu, eða ætli sér þetta eða hitt sem lítur jafnvel aldrei dagsins ljós í neinni nefnd. Mér finnst þetta ekki góð vinnubrögð og ég hvet meirihlutann til að gera betur,“ sagði Hilda Jana Gísladóttir.

Umræðurnar um þetta mál á fundi bæjarstjórnar í gær má sjá í heild í spilaranum hér að neðan.