Fara í efni
Tombólur

Sandra og Alex kjörin íþróttafólk Akureyrar

Íþróttafólk Akureyrar 2024: Alex Cambray Orrason kraftlyftingakappi úr KA og Sandra María Jessen knattspyrnukona úr Þór/KA. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Sandra María Jessen knattspyrnukona úr Þór/KA og Alex Cambray Orrason kraftlyftingakappi úr KA þóttu skara fram úr öðrum íþróttamönnum á Akureyri á síðasta ári; Sandra María var kjörin íþróttakona Akureyrar 2024 og Alex Cambray íþróttakarla Akureyrar 2024 á íþróttasviðinu.

Niðurstaða árlegs kjör var kunngjörð á íþróttahátíð sem Íþróttabandalag Akureyrar og Akureyrarbær stóðu fyrir í menningarhúsinu Hofi síðdegis í dag.

Þetta er annað árið í röð sem Sandra María er íþróttakona Akureyrar en Alex Cambray hlotnaðist heiðurinn í fyrsta skipti. Hann var kjörinn íþróttakarl KA á dögunum og Sandra María var nýlega kjörin íþróttakona Þórs.

Fimm efstu í kjöri íþróttakarls og íþróttakonu Akureyrar 2024. Frá vinstri Þorbergur Ingi Jónsson (3.), Veigar Heiðarsson (5.), Alex Cambray Orrason (1.), Anna María Alfreðsdóttir (5.), Hans Viktor Guðmundsson (4.), Eva Wium Elíasdóttir (4.), Hafdís Sigurðardóttir (2.), Húnn Snædal og Guðrún Freysteinsdóttir, afi og amma Baldvins Þórs Magnússonar, sem varð annar, Sandra María Jessen (1.) og Julia Bonet Carreras (3.) Mynd: Skapti Hallgrímsson

  • Í öðru sæti í kjörinu urðu Baldvin Þór Magnússon, hlaupari úr Ungmennafélagi Akureyri, sem var íþróttakarl Akureyrar 2023, og Hafdís Sigurðardóttir, hjólreiðakona úr HFA, sem kjörin var íþróttakona Akureyrar 2022.
  • Í þriðja sæti að þessu sinni voru Þorbergur Ingi Jónsson hlaupari úr UFA og Julia Bonet Carreras blakkona úr KA. 
  • Í fjórða sæti urðu Hans Viktor Guðmundsson knattspyrnumaður úr KA og Eva Wium Elíasdóttir körfuboltakona úr Þór.
  • Í fimmta sæti urðu Veigar Heiðarsson kylfingur úr Golfklúbbi Akureyrar og Anna María Alfreðsdóttir bogfimikona úr Akri. 

ALEX CAMBRAY ORRASON

Í umsögn ÍBA um íþróttakarl ársins á Akureyri sagði meðal annars:

  • Alex Cambray Orrason er íþróttakarl Akureyrar í fyrsta sinn. Hann átti afbragðs ár í kraftlyftingum; setti nokkur Íslandsmet, náði fremsta árangri allra íslenskra karlkyns keppenda á alþjóðamótum, ásamt því að sigrað á öllum innlendum mótum ársins í keppni með búnaði, óháð þyngdarflokki.
  • Í mars keppti Alex á Íslandsmeistaramótinu í kraftlyftingum með búnaði, þar sem hann varð Íslandsmeistari í sínum þyngdarflokki. Varð hann þar stigahæsti lyftari mótsins óháð þyngdarflokki.
  • Í maí keppti hann á Evrópumeistaramótinu sem haldið var í Lúxemborg. Þar keppti hann í sterkum flokk og lenti í 5. sæti og sló Íslandsmetið í samanlögðu með því að lyfta 840 kg samtals. Hann lyfti meðal annars 292.5kg í réttstöðulyftu sem er Íslandsmet í hans flokki.
  • Þá keppti hann á bikarmóti í kraftlyftingum í 105 kg flokki og sló þar Íslandsmet í hnébeygju með 360,5 kg lyftu en það er stigahæsta hnébeygja sem hefur verið tekin á Íslandi. Hann vann sinn flokk og var jafnframt stigahæstur óháð þyngdarflokki sem tryggði honum bikarmeistaratitilinn.
  • Í nóvember keppti Alex á heimsmeistaramótinu í kraftlyftingum með búnaði sem haldið var hérlendis. Lenti hann þar í 9. sæti með 837.5 kg í samanlagðri þyngd og átti góðan dag í hnébeygju þar sem hann endaði í 6. sæti. Alex lýkur árinu sem fjórtándi öflugasti lyftari ársins á heimslista alþjóða kraftlyftingasambandsins (IPF) og í 7. sæti á styrkleikalista Evrópska lyftingasambandsins (EPF). Nú í upphafi árs 2025 var Alex kjörinn íþróttakarl KA fyrir árið 2024.

SANDRA MARÍA JESSEN

Í umsögn ÍBA um íþróttakonu ársins á Akureyri sagði meðal annars:

  • Sandra María Jessen er íþróttakona Akureyrar í annað sinn. Hún er mikilvægur liðsmaður í ungu en öflugu liði Þórs/KA, fyrirmynd fyrir yngri iðkendur í ástundun, hugarfari, vinnuframlagi og baráttu, innan vallar sem utan.
  • Sandra María var valin besti leikmaður Þórs/KA að loknu keppnistímabilinu 2024. Hún var algjör lykilleikmaður í frábærum árangri Þórs/KA í mótum ársins. Hún er fyrirliði liðsins, reyndasti leikmaður þess og skoraði langflest mörk allra leikmanna.
  • Með liði Þórs/KA endaði hún í 4. sæti Bestu deildarinnar ásamt því að spila til undanúrslita í bæði Lengjubikar og Mjólkurbikarkeppni KSÍ.
  • Sandra María var valin besti leikmaður Bestu deildarinnar af leikmönnum deildarinnar og var að auki markadrottning deildarinnar. Hún skoraði alls 33 mörk í leikjum Þórs/KA í KSÍ-mótunum, 22 mörk í 23 leikjum í Bestu deildinni, tvö mörk í þremur leikjum í Mjólkurbikarkeppninni og níu mörk í sex leikjum í Lengjubikarnum. Að auki átti hún tíu stoðsendingar í þessum 32 leikjum. Þá kom hún við sögu í níu landsleikjum, í byrjunarliði í mörgum þeirra. Nú í upphafi árs 2025 var Sandra María kjörin íþróttakona Þórs fyrir árið 2024.