Fara í efni
Tombólur

Magnús verkefnastjóri í gervigreind við HA

Magnús Smári Smárason hefur verið ráðinn í nýtt starf verkefnastjóra í gervigreind við Háskólann á Akureyri. Starfið er til tveggja ára og mun Magnús hefja störf strax eftir áramót. Aðalverkefni Magnúsar verður að stýra innleiðingu og þróun gervigreindar innan háskólans, með sérstakri áherslu á fræðslu, ráðgjöf og mótun stefnu í tengslum við þessa byltingarkenndu tækni, að því er segir í tilkynningu á vef háskólans.

Magnús Smári er lesendum Akureyri.net að góðu kunnur því hann hefur skrifað reglulega pistla um gervigreind síðustu mánuði við góðan orðstír. Hann mun að sjálfsögðu halda því áfram. 

  • Smellið hér til að sjá pistla Magnúsar Smára fyrir Akureyri.net.

Á vef Háskólans á Akureyri segir að Magnús muni leiða verkefni sem efla nýtingu gervigreindar innan háskólans með því að styðja stoðþjónustu og akademískt starfsfólk við að nýta tæknina í störfum sínum, auk þess að sjá um fræðslu og skipulag námskeiða fyrir starfsfólk og stúdenta. Þá verði hann í forsvari fyrir mótun og innleiðingu gervigreindarstefnu skólans í samvinnu við stjórnendur, starfsfólk og stúdenta skólans.

Dr. Áslaug Ásgeirsdóttir rektor HA segir að ráðning Magnúsar séu tímamót fyrir Háskólann á Akureyri. „Gervigreindin er þegar farin að hafa áhrif í háskólum og er líkleg til að umbylta menntun, störfum og rannsóknum. Því er mikilvægt fyrir starfsfólk og stúdenta að læra hvernig er hægt að nýta sér þessa tækni, sem og takmarkanir gervigreindarinnar,“ segir Áslaug á vef skólans.

„Með þessari ráðningu er HA að taka stórt skref inn í framtíðina með því að móta gervigreindarstefnu fyrir Háskólann á Akureyri sem miðar að því að valdefla og styðja starfsfólk og stúdenta skólans að nýta sér gervigreind í námi og starfi,“ segir Dr. Auðbjörg Björnsdóttir forstöðumaður Kennslu- og upplýsingatæknimiðstöðvar Háskólans á Akureyri (KHA).

„Magnús hefur ástríðu fyrir gervigreind,“ segir á vef háskólans,„ og hefur meðal annars sótt námskeið í gervigreind og gagnavísindum hjá University of Oxford og starfað með The Erdos Research Labs, sem miðar að því að endurhugsa menntun með tilliti til gervigreindar.“ Magnús hafi víðtæka reynslu af kennslu og þróun námskeiða og hafi nýtt þá þekkingu til að setja upp námskeið og fyrirlestra um gervigreind og hafi skrifað fjölda pistla um samfélagsleg áhrif tækninnar – pistlana sem birst hafa á Akureyri.net og áður voru nefndir. „Þá er Magnús með meistarabréf í múriðn, með BA gráðu í lögfræði frá Háskólanum á Akureyri og stundar meistaranám í sama fagi.“

Ennfremur segir: „Ráðning Magnúsar er stórt skref fyrir Háskólann á Akureyri, sem stefnir á að vera í fararbroddi í nýtingu gervigreindar á Íslandi. Eins og fram hefur komið mun Magnús hefja störf í janúar og bjóðum við hann hjartanlega velkominn til starfa!“