Kraftar í akureyrskum kögglum í Trölladyngju
GAMLA ÍÞRÓTTAMYNDIN – 61
Akureyringar hafa oft getað státað af framúrskarandi keppendum bæði í ólympískum lyftingum og kraftlyftingum. Þessi skemmtilega mynd er tekin á æfingu um 1980 í Trölladyngju, eins og þáverandi æfingahúsnæði lyftingaráðs Akureyrar í kjallara Lundarskóla var kallað.
Akureyringar hófu að æfa lyftingar snemma á áttunda áratugnum. Fyrstu árin var bæði æft og keppt í vallarhúsinu við Akureyrarvöll, á ganginum framan við búningsklefana, en haustið 1977 fengu lyftingamenn bæjarins aðstöðuna í Lundarskóla og þar voru bækistöðvarnar þar til í janúar 1986 þegar flutt var í Jötunheima, æfingaaðstöðu í Íþróttahöllinni.
Einungis karlar rifu í lóðin framan af en einstaka kona bættist í hópinn þegar frá leið og margar lyfta lóðum í seinni tíð. Frægasta akureyrska kempan í dag er Sóley Margrét Jónsdóttir, sem keppir undir merkjum Breiðabliks. Sóley Margrét, sem varð Evrópumeistari í kraftlyftingum snemma síðasta árs og heimsmeistari fullorðinna í nóvember, varð önnur í kjöri íþróttamanns ársins á dögunum. Enginn Akureyringur hefur verið ofar á þeim lista síðan Alfreð Gíslason var kjörinn íþróttamaður ársins 1989.
Nánar um lyftingar og kraftlyftingar á þessum vettvangi síðar.
Ofanritaður þekkir flesta á myndinni með nafni en upplýsir ekki að sinni. Lesendur eru hvattir til að spreyta sig og senda upplýsingar eða tilgátur, jafnvel skemmtilegar sögur úr lyftingaheiminum, á netfangið skapti@akureyri.net