Fara í efni
Tombólur

Hernámsárin á fjalirnar í Freyvangsleikhúsinu

Freyvangsleikhúsið sýnir 'Land míns föður' í ár. Mynd: Freyvangsleikhúsið

Farið verður aftur í tímann til hernámsáranna í Freyvangi í vor, en næsta föstudag, 28. febrúar, verður söngleikurinn Land míns föður eftir Kjartan Ragnarsson frumsýndur. Freyvangsleikhúsið fylgir hér eftir vinsælli sýningu síðasta árs, Gaukshreiðrinu, en nú er alveg skipt um gír. Mikil tónlist einkennir verkið, en það var enginn annar en Atli Heimir Sveinsson sem samdi tónlistina. 

Hvaða áhrif hafði hernámið á Íslendinga, einstaklinga og þjóðlífið í heild? Athyglin beinist að unga parinu Báru og Sæla og fólkinu í kringum þau. Þau eru að hefja búskap þegar stríðið skellur á. Sæli kýs að fara frekar á sjóinn en í Bretavinnuna, en Bára og móðir hennar opna þvottahús sem þjónar hernum. Bára kynnist breskum liðsforingja og í fjarveru Sæla fella þau hugi saman. Ýmislegt gengur á áður en yfir lýkur og hlökkum við til að ferðast með ykkur aftur í tímann, segir í tilkynningu frá Freyvangsleikhúsinu.

Ólafur Jens Sigurðsson leikstýrir og tónlistarstjórn er í höndum Stefáns Boga Aðalsteinssonar.

Miðasala er á tix.is.
Facebook síða Freyvangsleikhússins

 

Rómantíkin er ekki langt undan í verkinu. Hvers mega íslenskir piparsveinar sín, þegar hópur af dátum kemur í bæinn? Mynd: Freyvangsleikhúsið