Fara í efni
Tombólur

Ekki mátti banna börnum að fara heim með bækur

Verkfallsstjórn Kennarasambands Íslands (KÍ) hefur upplýst foreldrafélag Lundarskóla um að ekki hafi mátt meina börnum að taka námsbækur með sér heim úr skólanum áður en verkfall kennara hófst nýverið.
 
Stjórn foreldrafélags fékk margar ábendingar um misræmi varðandi aðgengi að námsgögnum nemenda skólans meðan á verkfalli kennara stæði, eins og Akureyri.net greindi frá í síðustu viku, og óskaði félagið eftir ítarlegum rökstuðningi KÍ og Lundarskóla á því hvers vegna sumum börnum hafi verið meinað að fara með skólabækur heim en önnur verið hvött til þess. 
 

Foreldrafélagið fékk eftirfarandi svar frá verkfallsstjórn KÍ:

  • Líklega hefur gætt einhvers misskilnings þar sem ekki er hægt að meina börnum að taka námsbækur með sér áður en verkfall hefst. Hins vegar eftir að verkfallsaðgerðir eru hafnar þá fara nemendur/foreldrar ekki inn í kennslustofur til þess að sækja námsgögn. Bendum á að hægt er að finna ýmisleg námsgögn á veraldarvefnum. 
Valgerður Húnbogadóttir, meðstjórnandi í foreldrafélaginu, segir að stjórninni þyki mikilvægt að allir foreldrar séu meðvitaður um þetta. 
 
„Starfsfólk Lundarskóla starfar af mikilli fagmennsku og hefur tekist að skapa áhuga nemenda á náminu. Þarna hefur, líkt og KÍ viðurkennir, orðið misskilningur líkt og getur gerst í svo krefjandi aðstæðum sem þessum. Ég tel að flestir foreldrar vilji viðhalda þeim áhuga sem nemendur hafa á náminu,“ segir Valgerður.
 
Foreldrar fái að sækja bækur
 
„Á sama tíma og við lýsum yfir mikilli ánægju með kennara Lundarskóla og styðjum kjarabaráttu þeirra óskum við því eftir því að starfsmenn Lundarskóla, sem ekki eru í verkfalli, geri foreldrum kleift að sækja bækur óski þau þess,“ segir Valgerður. „Foreldrar fengu misvísandi skilaboð fyrir upphaf verkfalls og það var ekki komið til móts við óskir allra nemenda, eingöngu sumra. Við myndum einnig vilja fá yfirlýsingu frá Akureyrarbæ varðandi hvort verið sé að leggja mat á þau áhrif sem verkfallið hefur á nemendur Lundarskóla og hvort þau ætli að grípa til mótvægisaðgerða líkt og Umboðsmaður barna hefur hvatt til.“
 
 

Frétt Akureyri.net í síðustu viku: Er heimanám verkfallsbrot?