Fara í efni
Tómas á Borgum

Tómas VI – Fokið í Fnjóskadalinn

Margir frægir lygalaupar hafa komið og farið í heim þennan. Í Grímsey bjó einn slíkur, Tómas Steinsson á Borgum (1769 - 1843). Tómas gefur kollegum sínum í uppspuna, á borð við Munchhausen barón og fleirum, ekkert eftir. Birtar eru nokkrar ótrúlegar sögur af Tómasi á Akureyri.net í vetur._ _ _

Það vita það allir sem þekkja til, að oft geta gengið mikil aftakaveður yfir Grímsey. Eitt það allra skæðasta brast á þegar Tómas var að ganga einhverra erinda austur á Grímseyjar-björgum. Á augabragði kemur hann snarbrjálaður að norðan og feykir Tómasi upp og út eftir Grímseyjarsundi án þess að hann kæmi nokkrum vörnum við. Ekki missti hann flugið fyrr en hann lenti á Hágöngum, þar sem hann náði fyrir mildi að grípa utan um stóran stein og taldi sig öruggan þar. En Kári var ekki sammála því og þeytti þeim upp báðum tveimur; Tómasi og steininum í faðmlögum. Þegar þarna var komið sögu viðurkenndi Tómas að hafa verið orðinn undarlegur í höfðinu og tæpast í góðu jafnvægi andlega.

Tómas og steinninn komu ekki niður fyrr en löngu síðar, þegar þeir lenda með drunum og fyrirgangi á túninu við Fornastaði í Fnjóskadal. Tómas hafði haldið dauðahaldi í steininn allan tímann en ákvað að nú myndu skilja leiðir. Við þá sem síðar þóttust ekki trúa þessari sögu, sagði Tómas að þeir gætu bara komið við í næstu ferð í Fnjóskadalinn og þá myndu þeir sjá steininn þar á túninu, sögunni til staðfestingar.

  • Sögurnar af Tómasi eru endurskráðar úr ýmsum heimildum. Helst ber að nefna Handrit Theódórs Friðrikssonar frá 1907, baksíðu Alþýðublaðsins 27.03.1966 og greininni „Gengið um Grímsey” úr sunnudagsblaði Tímans 26.07.1964. Báðar greinar lesnar á www.timarit.is.