Fara í efni
Þór/KA

Þór/KA og Víkingur berjast um þriðja sætið

Sandra María Jessen, lengst til hægri, er lang markahæst í Bestu deildinni og Hulda Ósk Jónsdóttir, sem brosir þarna breitt eftir að hún skoraði í sumar, á í harðri baráttu um að verða stoðsendingadrottning deildarinnar. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Þór/KA tekur á móti liði Víkings á Greifavelli KA í dag kl. 14.00 í lokaumferð efri hluta Bestu deildarinnar, efstu deildar Íslandsmótsins í knattspyrnu. Liðin berjast um þriðja sæti deildarinnar; Stelpurnar okkar eru þar með 34 stig en Víkingar stigi á eftir í fjórða sæti.

Liðin hafa mæst tvisvar á árinu og unnust báðir leikirnir á útivelli. Þór/KA vann 2:1 sigur á Víkingsvellinum snemma í maí þar sem Sandra María Jessen og Ísfold Marý Sigtryggsdóttir skoruðu mörkin. Mark Ísfoldar var fyrsta mark liðsins í deildinni sem Sandra María skoraði ekki; Sandra hafði þá gert sjö mörk í þremur leikjum! Seinni leikurinn fór fram á VÍS-vellinum (Þórsvellinum) í júlí og þar höfðu Víkingar betur, 2:0. Þessir tveir leikir eru einu innbyrðis viðureignir þessara liða í efstu deild.

Eins og mörgum er án efa kunnugt er Sandra María Jessen lang markahæst í deildinni og aðeins kraftaverk í öðrum leikjum kemur í veg fyrir að hún verði markadrottning Íslandsmótsins.  Sandra hefur gert 22 mörk – eitt í leik að jafnaði, því 22 leikir eru að baki.

Vert er að vekja einnig athygli á því að Hulda Ósk Jónsdóttir á í harðri baráttu um að verða stoðsendingadrottning deildarinnar. Niðurstaðan varðandi þá tölfræði verður þó ekki ljós fyrr en eftir lokaleik deildarinnar, milli Vals og Breiðabliks, sem hefst eftir að öðrum leikjum lýkur. Þar ræðst líka hvort þeirra liða verður Íslandsmeistari.

Akureyri.net hvetur alla knattspyrnuáhugamenn til að mæta á Greifavöllinn í dag og sýna stelpunum þannig stuðning í verki.