Fara í efni
Þór/KA

SA á 14 stelpur í U18 landsliðinu í íshokkí

SA stelpurnar í U18 landsliðinu stilltu sér upp fyrir myndatöku. Nöfnin má finna við myndina inni í fréttinni. Mynd: Elísabet Ásgrímsdóttir.

Að venju eiga Akureyringar marga fulltrúa þegar landslið í íshokkí eru valin og taka þátt í keppnum, hvort sem það eru yngri landsliðin eða A-landsliðin. U18 landslið kvenna er þessa dagana statt í Istanbúl í Tyrklandi þar sem liðið keppir í sínum styrkleikaflokki, riðli B í 2. deild, á Heimsmeistaramóti. Þar eru 14 stelpur úr SA, ásamt fulltrúum Akureyringa í starfsliði í kringum liðið.

SA-stelpurnar í U18 landsliðinu í íshokkí. Aftasta röð frá vinstri: Aníta Júlíana Benjamínsdóttir, Silvía Mörk Kristinsdóttir, Arna Sigríður Gunnlaugsdóttir, Freyja Rán Sigurjónsdóttir, Heiðrún Helga Rúnarsdóttir, Aðalheiður Anna Ragnarsdóttir, Magdalena Sulova og Silvía Rán Björgvinsdóttir aðstoðarþjálari. Miðröð frá vinstri: Kolbrún Björnsdóttir, Sveindís Marý Sveinsdóttir, Eyrún Arna Garðarsdóttir, Ragneiður Alís Ragnarsdóttir og Sólrún Assa Arnardóttir. Fremstar eru markverðirnir Díana Lóa Óskarsdóttir og Aníta Ósk Sævarsdóttir.

U18 landsliðshópinn má finna í frétt á vef Íshokkísambandsins, en af 22 leikmönnum eru 14 úr röðum Skautafélags Akureyrar. Stelpurnar hafa nú þegar unnið tvo stórsigra á mótinu, fyrst var það 17-0 sigur gegn Suður-Afríku  og síðan 7-0 sigur gegn Belgíu. Sólrún Assa Arnardóttir var valin maður leiksins gegn Suður-Afríku.

Íslenska liðið á tvo erfiða leiki eftir og má segja að báðir séu úrslitaleikir um gullverðlaun. Ísland mætir liði Mexíkó kl. 16 í dag og má fylgjast með leiknum í beinu streymi á YouTube.

Markasúpa og hreint mark hingað til

Í sigrinum gegn Suður-Afríku skoraði Sólrún Assa Arnardóttir þrjú mörk og átti þrjár stoðseningar. Mörk og stoðsendingar hjá öðrum SA-stelpum í leiknum: Sólrún Arnardóttir 3/3, Magdalena Sulova 1/4, Kolbrún Björnsdóttir 2/2, Eyrún Garðarsdóttir 2/1, Sveindís Sveinsdóttir 1/1, Heiðrún Rúnarsdóttir 1/0, Silvía Mörk Kristinsdóttir 0/1, Aníta Júlíana Benjamínsdóttir 0/1. Þá skoraði Friðrika Magnúsdóttir úr SR fjögur mörk og átti fjórar stoðsendingar, en hún er af mikilli hokkíætt hér í bæ, dótturdóttir Ásdísar Sæmundsdóttur og Leifs Ólafssonar.


Sveindís Sveinsdóttir fyrirliði U18 landsliðsins ásamt fyrirliða Belgíu og dómurum leiksins. Mynd: Elísabet Ásgrímsdóttir.

Sólrún Assa var síðan valin maður leiksins í sigrinum gegn Belgum. Mörk og stoðsendingar SA-stelpnanna í þeim leik: Kolbrún Björnsdóttir 2/1, Magdalena Sulova 1/0, Sólrún Assa Arnardóttir 0/3, Ragnhreiður Alís Ragnarsdóttir 0/1, Heiðrún Rúnarsdóttir 0/1. Aftur var það Friðrika Magnúsdóttir úr SR sem var efst á lista með tvö mörk og tvær stoðsendingar.

Fólkið í kringum liðið er síðan einnig mjög tengt Skautafélagi Akureyrar:

  • Silvía Rán Björgvinsdóttir er aðstoðarþjálfari
  • Sólveig Hulda Valgeirsdóttir hjúkrunarfræðingur
  • Elísabet Ásgrímsdóttir fararstjóri
  • Teresa Snorradóttir er aðstoðarþjálfari. Hún spilar með Fjölni, en kemur upphaflega úr röðum SA.


Örn Smári Kjartansson, eða Örri eins og hann er oftast nefndur, lætur sig ekki vanta á kappleiki þar sem dóttirin, Sólrún Assa, kemur við sögu. Mynd: Elísabet Ásgrímsdóttir.