Fara í efni
Þór/KA

Maddie Sutton: „Vildum þetta virkilega mikið“

Maddie Sutton í leiknum gegn Haukum í dag. „Ég er rosalega spennt að fara aftur í undanúrslit með þessu liði,“ segir hún. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Það var eðlilega mikil gleði í herbúðum kvennaliðs Þórs í körfubolta í leikslok í kvöld, eftir sigur á Haukum, enda var liðið að slá annað af tveimur bestu liðum landsins út úr bikarkeppninni í átta liða úrslitum og tryggja sér sæti í bikarvikunni, sem því miður fær ekki inni í þjóðarhöllinni Laugardalshöll heldur verður í Smáranum í Kópavogi.

Maddie Sutton veit hvað það er að komast í bikarvikuna, spila undanúrslitaleik og úrslitaleik og hún og liðið vissu nákvæmlega hvað þær vildu og er eðlilega mjög spennt að fara í slíkt ævintýri annað árið í röð. 

„Ég er rosalega spennt að fara aftur í undanúrslit með þessu liði,“ sagði Maddie eftir leikinn. „Þetta er meiriháttar lið og við höfum átt frábæran kafla, það er bara svo frábær tilfinning að vinna átta leiki í röð í Höllinni okkar. Við höfum barist í gegnum allt, við berjumst í gegnum þreytuna, berjumst sem lið, berjumst í gegnum meiðsli, en þegar öllu er á botninn hvolft vildum við þetta bara virkilega mikið og látum utanaðkomandi þætti eða aðstæður, eins og dómara, ekki hafa áhrif á okkur. Við erum með meiriháttar fólk í stúkunni sem hjálpar okkur með orkuna, bekkurinn er ekki fjölmennur, eins og þú veist. Við erum bara með mjög hæfileikaríkt lið og ég vil bara sjá hvernig við höldum áfram,“ sagði Maddie Sutton sem skilaði 33 framlagsstigum í dag og var einni stoðsendingu frá því að ná tvennu í þremur tölfræðiþáttum, skoraði 16 stig, tók 13 fráköst, öll í vörn, og átti níu stoðsendingar.

Geðveikt stuðningslið!

Heiða Hlín Björnsdóttir hætti eiginlega að æfa og spila körfubolta fyrir yfirstandandi tímabil og tók að sér starf aðstoðarþjálfara Daníels Andra Halldórssonar. Hún hefur þó brugðið sér í búninginn öðru hverju og var á leikskýrslu sem leikmaður og aðstoðarþjálfari í dag, klár í búningnum ef á þyrfti að halda. Hún var þó aðeins áttundi leikmaðurinn á skýrslu Þórs og því mæddi mjög mikið á lykilleikmönnum liðsins eins og áður. 

„Við erum bara búnar að vera ruglaðar seinustu níu leiki, það er bara þannig. Orkan og það allt, við vitum bara að við erum langbesta liðið í þessari deild og ég held að það hafi sýnt sig og sannast inni á vellinum í dag. Það má ekki gleyma stuðningsliðinu, þau eru alltaf geðveik!,“ sagði Heiða Hlín þegar tíðindamaður frá Akureyri.net náði tali af henni eftir leik. 

Heiða Hlín skoðaði auðvitað tölfræðina eins og þjálfarar gera og benti á áhugaverðan þátt í leiknum.

„Fyrir fólk sem kann að rýna í „stattið“ lítur þetta ekki voðalega vel út. Þær eru með miklu fleiri sóknarfráköst, við tókum bara þrjú sóknarfráköst, og samkvæmt öllu hefður þær átt að vinna. En við bara hittum á betri skot og við erum með byssur í þessu liði, þær þurfa ekki hálfa sekúndu til að koma upp skoti og þær hitta í 50% tilvika. Þetta segir sig bara sjálft, þú tapar eiginlega ekki leik ef þú ætlar að hitta svona,“ sagði sigurreif Heiða Hlín Björnsdóttir, aðstoðarþjálfari Þórs.