Fara í efni
Þór/KA

Bikarinn: Titilvörn KA hefst í dag

Hallgrímur Jónasson, þjálfari karlaliðs KA í knattspyrnu, lyftir bikarnum í september í fyrra. KA vann þá bikarkeppnina í fyrsta skipti. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Karlalið KA í knattspyrnu hefur titilvörnina í bikarkeppni KSÍ – Mjólkurbikarnum – í dag þegar liðið tekur á móti KFA í 32ja liða úrslitum keppninar.

KA hefur farið alla leið í úrslitaleikinn tvö ár í röð og vann bikarkeppnina sem kunnugt er í fyrrasumar með sigri 2-0 á liði Víkings í úrslitaleiknum í september, en árið á undan höfðu Víkingar betur, 3-1. Enn er löng leið að sjálfum úrslitaleiknum, sem er á dagskrá 21. ágúst í þetta skiptið, en þó öruggt að KA getur ekki mætt Víkingi þriðja árið í röð því Víkingar félllu úr leik í gær með 3-0 tapi fyrir ÍBV í Eyjum.

Liðin í Bestu deild karla hefja þátttöku í Mjólkurbikarkeppninni, koma inn í 32ja liða úrslitin. KA fékk heimaleik og fær heimsókn að í dag þegar lið KFA kemur í heimsókn á KA-völlinn – Greifavöllinn. KFA leikur í 2. deild og vann Spyrni 3-0 í 2. umferð keppninnar.

  • Mjólkurbikar karla í knattspyrnu, 32ja liða úrslit
    KA-völlur (Greifavöllur) kl. 17:30
    KA - KFA

Sigurliðið fer áfram í 16 liða úrslit sem leikin verða 14. og 15. maí.

Árangur KA í bikarkeppninni síðustu tíu skipti: 

  • 2024 - bikarmeistarar
  • 2023 - silfur, tap í úrslitaleik
  • 2022 - undanúrslit
  • 2021 - 16 liða úrslit
  • 2020 - 16 liða úrslit
  • 2019 - 16 liða úrslit
  • 2018 - 16 liða úrslit
  • 2017 - 32ja liða úrslit
  • 2016 - 32ja liða úrslit
  • 2015 - undanúrslit