Fara í efni
Þór

Úr NBA í Garðinn hans Gústa – MYNDIR

Leigh Ellis ásamt ungum og áhugasömum körfuboltastrákum í Garðinum hans Gústa á laugardaginn. Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Mikið líf og fjör var í Garðinum hans Gústa við Glerárskóla síðastliðinn laugardag þar sem hópur ungra körfuboltaiðkenda var samankominn til að hitta mann að nafni Leigh Ellis, Ástrala sem búsettur er í Bandaríkjunum.

Ellis þessi hafði þann starfa um árabil að fjalla um bandarísku NBA deildina í körfubolta, bæði á sjónvarpsstöð deildarinnar og í hlaðvarpi, en ákvað síðan að breyta til og einsetti sér fyrir tæpu ári að ferðast til að minnsta kosti 10 landa fyrir lok þessa árs, leika þar körfubolta utandyra á völlum eins og þeim frábæra Garði sem kenndur er við Ágúst H. Guðmundsson heitinn, og leiðbeina ungviðinu.

„Mér finnst afar gaman að ferðast með fjölskyldunni og alltaf þegar ég hef verið í Evrópu, til dæmis í Berlín eða Barcelona, leita ég uppi velli eins og þennan og spila með þeim sem þar eru. Upptökur set ég svo á samfélagsmiðla, þær fóru að vekja mikla athygli og fólk að hvetja mig til að koma til ýmissa borga og landa,“ sagði Ellis í samtali við Akureyri.net á laugardaginn.

„Þetta vatt upp á sig og nú er ég kominn hingað; Ísland er 17. landið sem ég heimsæki þannig að ég er löngu búinn að ná takmarkinu sem ég setti mér að ná fyrir árslok og löndin gætu orðið fleiri áður en langt um líður,“ segir Ellis sem hefur fengið fyrirspurnir víða að. Nefnir Noreg, Frakkland og Mexíkó.

Það var Helgi Hrafn Halldórsson, fyrrverandi leikmaður körfuboltaliðs Þórs, sem átti hugmyndina að því að bjóða Ellis til Íslands og að sjálfsögðu til Akureyrar, þótt Helgi sé nú búsettur á höfuðborgarsvæðinu.

„Helgi sá mig á samfélagsmiðli og sendi mér skilaboð: Viltu ekki koma til Íslands? Ég svaraði um hæl: Jú, að sjálfsögðu!“

Ellis, sem búsettur er í Atlanta í Georgíuríki Bandaríkjanna, falaðist eftir aðstoð Helga við að útvega flugfar hingað austur um haf, gistingu og þess háttar og þegar það var klárt var honum ekkert að vanbúnaði. „Helgi hefur verið mjög rausnarlegur og ferðin hingað algjörlega frábær.“

Tímasetningin var ekki tilviljun því árlegt Pollamót Þórs í körfubolta var í Íþróttahöllinni um síðustu helgi. Þar var Ellis gestur og vakti lukku. Þar stóð hann til dæmis fyrir miðjuskotskeppni þar sem Sigmundur Eiríksson vann ekta Shaquille O'Neal treyju og Sara María Davíðsdóttir vann 100.000 króna inneign hjá flugfélaginu PLAY, sem sá einmitt um að flytja Ellis yfir hafið.

„Það er frábært að fá tækifæri til að koma á stað eins og þennan og spila körfubolta, en ekki síður að hitta börnin, bæði stráka og stelpur. Þau eru greinilega áhugasöm en ég veit að þegar einhver utanaðkomandi kemur og talar við svona hóp taka allir enn betur eftir en ella.“

„Ég vona að þessar ferðir mínir hvetji fólk bæði til þess að spila körfubolta og ferðast. Ég er sannfærður um að ferðalag er dýrmætasta reynsla sem fólk getur öðlast og eitt það lærdómsríkasta sem til er. Hér er ég í stórkostlega fallegum hluta Íslands. Ég er viss um að flestir sem telja sig þekkja Ísland sem áfangastað hugsa um Reykjavík og Bláa lónið og láta þar við sitja! Að koma í bæ eins og þennan, að upplifa jafn mikla gestrisni og raun ber vitni, er ómetanlegt. Að ég tali nú ekki um hve fallegt er hérna! Landslagið hér, fjöllin og umhverfið allt, er með því fallegasta sem ég hef séð.“

Ellis er fæddur og uppalinn í Ástralíu, flutti þaðan til London á Englandi, síðan til Toronto í Kanada og loks til Bandaríkjanna. Er búsettur í Atlanta sem fyrr segir ásamt eiginkonu sinni og börnum.

„Saga mín er dálítið skondin. Ég var bara 22 ára bakpokastrákur á flakki um heiminn þegar ég hitti stelpu ... Þú getur án efa getið þér til um framhaldið!“ segir hann og hlær.

Ellis starfaði í sex ár á sjónvarpsstöð NBA deildarinnar, þar sem hann var einn umsjónarmanna þáttarins The Starters, í fimm ár sá hann ásamt fleirum um No Dunks, daglegan hlaðvarpsþátt um NBA deildina.

„Þetta var mjög skemmtileg vinna eins og nærri má geta; ég var fyrst í tvö ár í hlaðvarpinu, svo fimm ár í sjónvarpinu og síðan aftur í þrjú ár með hlaðvarpið. Körfubolti hefur skipað stóran sess í mínu lífi í langan tíma en að því kom að mig langaði að breyta til; fann þörf fyrir að prófa eitthvað nýtt, og datt þá í hug hvort ég gæti ferðast um heiminn og spilað körfubolta!“

Aldeilis ekki afleit hugmynd – og hún varð sem sagt að veruleika á síðasta ári. „Þetta er mjög gefandi, bæði að ferðast og hitta svona marga í tengslum við körfubolta en ekki bara það; að borða ólíkan mat, kynnast mismunandi menningu og hitta mismunandi fólk er svo lærdómsríkt.“

Ellis birtir töluvert efni jafnharðan á samfélagsmiðlum þegar hann er á flakki, það nýtur vinsælda og hann vonast til þess að verkefnið þróist enn frekar. „Ég vonast til þess að einhverjum þykit spennandi að gera heimildaþætti um þessi ferðalög mín. Ég geri mér grein fyrir því að enginn stekkur á þá hugmynd eftir að ég hef verið á ferðinni í fáeina mánuði því allt tekur tíma en vonandi þykir einhverju framleiðslufyrirtæki þetta spennandi og er tilbúið að láta alvöru teymi fylgja mér eftir og gera þætti.“

Ýmsir hafa hjálpað Ellis á því ævintýri sem ferðirnar eru. „Mér finnst engin ástæða til þess að bíða eftir að einhverjir frábærir fagmenn kveiki á perunni og vilji flakka um með mér. Ef maður bíður eftir rétta tímanum gerist aldrei neitt. Símar eru orðnir ótrúlega góðar kvikmyndavélar, gæðin eru ekki fullkomin en þetta þarf heldur ekki að vera fullkomið.“

Svo mörg voru þau orð. Það leyndi sér ekki hve krakkahópurinn hafði gaman af heimsókn Ellis. Allir hituðu samviskusamlega upp undir hans stjórn, og síðan var skipt í hópa sem spreyttu sig á alls kyns leikjum og verkefnum.

Góður dagur í Garðinum hans Gústa. Frá vinstri: Helgi Hrafn Halldórsson, Leigh Ellis, Bjarki Ármann Oddsson og Óskar Þór Þorsteinsson.