Þór
Tveir mjög mikilvægir handboltaleikir
30.03.2022 kl. 15:41
Tveir afar mikilvægir handboltaleikir eru á dagskrá í kvöld.
18.00 KA/Þór - ÍBV
- KA/Þór vann glæsilegan sigur á toppliði Fram í Olís deildinni í Reykjavík um síðustu helgi. Nái Stelpurnar okkar að sigra ÍBV í kvöld verður forskot Framara aðeins tvö stig þegar þrjár umferðir verða eftir af deildinni og KA/Þór aðeins einu stigi á eftir. KA/Þór, Fram og Valur eiga í hatrammri baráttu um tvö efstu sætin, sem gefa farseðil beina leið í undanúrslitin en næstu fjögur lið keppa um hin tvö sæti fjögurra liða úrslitanna um Íslandsmeistaratitilinn.
19.00 Þór - Fjölnir
- Leikur liðanna getur haft mjög mikið að segja um hvaða lið vinnur deildina. Þórsarar blanda sér af alvöru í baráttu efstu fjögurra liðanna með sigri. Vinni Þór í kvöld verður liðið aðeins þremur stigum á eftir Herði frá Ísafirði, sem er á toppnum sem stendur, og Þór á þá enn einn leik til góða. Þór og Hörður mætast svo í síðustu umferð deildarinnar 8. apríl. Sigri Fjölnismenn hins vegar í kvöld verða þeir jafnir Herði að stigum. Því er sannarlega mikið í húfi fyrir bæði lið í Höllinni í kvöld.